Hanna Katrín: „Þessi hópur ungmenna tók umræðu um heilbrigðismál upp á annað og hærra plan“

Hanna Katrín: „Þessi hópur ungmenna tók umræðu um heilbrigðismál upp á annað og hærra plan“

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, var ánægð með unga fólkið sem tók til máls í þingsal Alþingishússins á þjóðhátíðardeginum í gær. Á meðal umfjöllunarefna voru umhverfismál, jafnréttismál og heilbrigðismál. Í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag segir hún nálgun unga fólksins á heilbrigðismál hafa haft mest áhrif á sig.

Hún segir að umræðan hafi ekki snúist um hvernig skipulagið við að lækna sjúka eigi að vera. „Ekki hvort það sé betra að þessi en ekki hinn sinni þjónustunni. Hvernig viðkomandi eining eigi að vera samsett, hvar staðsett og hvernig rekin. Hverjir hljóti pólitíska náð fyrir augum ráðamanna og hverjir ekki. Líklega var þetta ekki nefnt af því að þessum hópi þótti annað vera mikilvægara þegar kemur að heilbrigðismálum þjóðar. Að minnsta kosti þegar kemur að umræðu og ákvörðunum í þingsal.“

Samgöngur og lýðheilsa

„Í þingsalnum í gær tók þessi hópur ungmenna umræðu um heilbrigðismál upp á annað og hærra plan. Þau höfðu meiri áhuga á því að viðhalda heilbrigði. Umræðan um heilbrigðismál snerist þannig um samgöngur og lýðheilsu. Hvernig stjórnvöld geti búið um hnútana svo að fólk eigi þess kost að ferðast á heilnæman hátt á milli staða. Hvernig tryggja megi börnum og unglingum virkan þátt í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Áhrif snjalltækjanotkunar á þroska barna í fjölbreyttu samhengi. Í stuttu máli; hvernig við búum hér til aðstæður og umhverfi sem styðja við heilbrigðan lífsstíl, vellíðan og hamingju,“ segir Hanna Katrín.

Hún segir að lokum: „Komið fagnandi með ykkar heilbrigðu sýn á heilbrigðismál!“

Nýjast