Hagsmunasamtök heimilanna hvetja fólk til að sækja rétt sinn - Lánaskilmálar ólögmætir hjá Arion banka

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja fólk til að sækja rétt sinn - Lánaskilmálar ólögmætir hjá Arion banka

Neytendastofa úrskurðaði nýlega að lánaskilmálar í lánum Frjálsa fjárfestingarbankans, nú Arion banka, væru ólöglegir. Að sögn Hagsmunasamtökum heimilanna áskilji skilmálarnir lánveitanda einhliða heimild til geðþóttaákvarðana um vaxtabreytingar. Enn fremur segja samtökin að slík ákvæði séu skýr brot á neytendarétti og bendir á að Neytendastofa hafi staðfest það með ákvörðun sinni.

Samtökin benda á að engar leiðréttingar munu eiga sér stað nema lánþegar sæki þær sjálfir, jafnvel í gegnum dómstóla. Segja samtökin að bankinn fái þannig að halda áfram lögbrotum sínum nema lánþeginn átti sig á brotunum og leiti réttar síns. En sé bankinn ekki tilbúin til samninga þarf hver og einn að draga hann fyrir dómstóla með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn. Hagsmunasamtök heimilanna hvetja lántakendur því til að leita réttar síns, telji þeir að á þeim hafi verið brotið með þessum aðgerðum bankans.
 
Hagsmunasamtökin hafa einnig sent erindi til Fjármálaeftirlitsins þar sem kemur fram að stofnunin er minnt á að það sé í verkahring hennar að fylgja eftir niðurstöðum dómstóla. Hagsmunasamtök heimilanna telja það sama hljóta að gilda um niðurstöður eftirlitsstjórnvalda og beina því til Fjármálaeftirlitsins að fylgja eftir ákvörðun Neytendastofu með því að sjá til þess að Arion banki leiðrétti vexti allra lána með hinum ólöglegu skilmálum og endurgreiði hlutaðeigandi neytendum oftekna vexti með vaxtavöxtum.
 

Nýjast