Gunnar bragi sagðist myndu saka albertínu um nauðgunartilraun

Upptökurnar af samtölum þingmanna við drykkju á barnum Klaustur sem borist hafa fjölmiðlum eru alls yfir þrjár og hálf klukkustund að lengd.

Fyrstu viðbrögð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, að þarna hafi verið á ferð sérstakur hlerunarbúnaður eða brotist inn í síma stjórnmálamannanna, eru augljóslega byggð á röngu mati. Upptökurnar virðist einhver hafa gert frá nærliggjandi borði, að líkindum einfaldlega með eigin síma. Ef til vill sat hópurinn „einn úti í horni“ eins og Sigmundur Davíð sagði í Facebook-færslu sinni, en það var þá við borð á bar, umkringdur öðrum borðum og öðru fólki. Hafi ætlun stjórnmálamannanna verið að fara leynt með samskipti sín á barnum, og hafi þeir getað vanist því til þessa, að stjórnmálamenn geti gasprað um pólitíska andstæðinga sína og annað við drykkju á knæpum að kvöldlagi, kallað samskiptin einkasamtal, og ætlast til að aðrir bargestir, sýni, óumbeðnir, trúnað um þau samskipti eftir dagrenningu, eru íslensk stjórnmál kannski, að því leyti „gerbreytt“, eins og Sigmundur Davíð sagði um upptökurnar og afleiðingar þeirra.

„Hljóma eins og pólitískt plott“

Þátttakendur í samtalinu eru Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, þingmenn Flokks fólksins, og fjórir þingmenn Miðflokksins: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir. Samtalið fór fram að kvöldi þriðjudagsins 20. nóvember. Meginásetningur þingmanna Miðflokksins virðist hafa verið sá að bera víurnar í þessa tvo þingmenn Flokks fólksins og sannfæra þá um að ganga til liðs við þingflokk Miðflokksins.

Samtölin sem heyrast á upptökunum eru að mestu leyti leiðinleg, í þeim skilningi að þau eru til vitnis um þröngan og andlítinn sameiginlegan hugarheim þeirra sem þar koma saman. Þingmönnunum sjálfum er skemmt og þau hlæja mikið, en fyrsta lexía flestra annarra sem á upptökuna hlýða er trúlega að lenda aldrei á fylleríi með þessum hópi. Sigmundur Davíð segir fjölmiðla láta samræðurnar „hljóma eins og pólitískt plott“. Tilfellið er að fólkinu við borðið virðist ekki fara ekki eitt orð á milli sem ekki er „pólitískt plott“. Í vel á fjórðu klukkustund sitja þau og ræða aðeins um stöðu einstakra stjórnmálamanna, út frá hagsmunum sinna eigin flokka. Virðist þar allt liggja undir, öll atvik, öll tilveran, eru metin út frá möguleikum til, einmitt, pólitískra plotta.

Hér verður rakin ein slík frásögn. Persónuupplýsingum, nöfnum og staðsetningum, var haldið frá þessari endursögn í fyrstu. Það er til lítils eftir að frásögnin birtist víðar. Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, er sögumaður í því sem á eftir fer. Og konan sem hann greinir frá samskiptum sínum við er Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingkona Samfylkingarinnar.

Ljóst er af tali fólksins að Gunnar Bragi hefur sagt söguna áður og að hann metur atburðarásina sem um ræðir út frá gildi hennar til „pólitískra plotta“. Frásögnin á að því leyti erindi við almenning, ekki síst það sem kalla mætti óvarkárt gaspur þingmannsins um þau áform sín að hafa söguna í handraðanum ef einhvern tíma hentaði að saka þingkonuna um nauðgunartilraun.

Einn viðstaddra, einnig þingmaður, segist í kjölfar frásagnarinnar meta samstarfskonur sínar út frá „#metoo-hættu“, og slíta öll samskipti við konur sem bera með sér slíka hættu.