Gunnar bragi hefur þingstörf að nýju í dag

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, mun hefja þingstörf að nýju í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá honum í morgun. Gunnar Bragi tók sér launalaust leyfi í kjölfar Klaustursupptakanna, þar sem hann viðhafði m.a. óviðeigandi ummæli um konur og ræddi það sem virtist vera pólitísk hrossakaup vegna skipan í sendiherrastöðu.

Bergþór Ólason, annar þingmaður Miðflokksins sem tók sér einnig launalaust leyfi í kjölfar ósæmilegra ummæla um konur á Klaustursupptökunum, tilkynnti einnig í morgun að hann hyggist snúa aftur til þingstarfa innan tíðar.

Í yfirlýsingu sinni segist Gunnar Bragi finna sig knúinn til að snúa aftur til starfa vegna framgöngu Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis. Hann segist iðrast óviðeigandi og særandi orða og að hann hafi beðist fyrirgefningar á orðum sínum og geri það nú aftur. Hann ítrekar þó skoðun sína að upptökurnar hafi verið ólögmætar.

Yfirlýsing Gunnars Braga í heild:

„Í kjölfar óviðeigandi og særandi orða og ólögmætrar upptöku á þeim þá tók ég þá ákvörðun að taka mér launalaust leyfi frá þingstörfum eftir að hlerunarmálið umtalaða komst í hámæli. Ég vildi skoða hug minn, safna kröftum og ræða síðan við bakland mitt. Ég iðrast og hef beðist fyrirgefningar á orðum mínum og geri það enn á ný.

Ég hef leitað ráðgjafar og um leið notið mikils skilnings og stuðnings ættingja, vina og félaga innan flokks og utan. Þakka ég þeim hvatninguna og traustið.

Miðflokkurinn gaf mér það svigrúm sem ég óskaði eftir og hvorki hvatti mig né latti til að flýta endurkomu minni. Vel má skilja það hlutleysi sem vísbendingu um að hvorki ég né aðrir væru ómissandi fyrir flokkinn og undir það tek ég heilshugar. Ég var á hinn bóginn kosinn til starfa á Alþingi af fjölda fólks og gagnvart því ber ég ríkar skyldur. Þær vildi ég að sjálfsögðu rækja á nýjan leik í fyllingu tímans. Þakka ég þeim fjölmörgu stuðningsmönnum sem hafa sett sig í samband við mig og minnt mig á þessar skyldur mínar og hvatt mig til starfa.

Stundum eru ákvarðanir nánast teknar fyrir mann. Fremur óvænt – en samt ekki - blasir svarið við því hvenær rétt sé að snúa til baka. Fyrstu dagar þingfunda á nýju ári, og framganga forseta Alþingis að undanförnu, er með þeim hætti að annað er óhjákvæmilegt en að nýta sér allan rétt til þess að vera inni á þeim leikvelli þar sem að mér er sótt og svara fyrir mig á þeim vettvangi en ekki utan hans. Þess vegna mæti ég á nýjan leik til starfa minna á Alþingi í dag.“