Gunnar bragi: „mestu popúlistarnir sem elta tíðarandann og sveiflast eins og vindhanar eftir fésbókinni“

Við þingsetningu í gær komu bæði Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands í ávarpi sínu og Sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson í guðsþjónustu sinni inn á mikilvægi þess að rökræða og að ágreiningur væri eðlilegur í lýðræðissamfélagi. Í pistli í Morgunblaðinu í dag segir Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður Miðflokksins, það vera áhugavert og er þeim sammála.

Hann segir stjórnmál snúast um stefnur og leiðir til að ná markmiðum þeirra fram til hagsbóta fyrir samfélagið. „Á alþingi eiga að mætast stefnur og þingmenn að rökræða um markmið þeirra, afleiðingar og þær leiðir sem þingmenn leggja til að ná þeim fram. Því miður er það þannig að oftar og oftar snúast ræður þingmanna um tíðarandann, eitthvað sem er „vinsælt“ á samfélagsmiðlum eða eitthvað sem einhver „mótmælir“ á samfélagsmiðlum en ekki grundvallarstefnumál. Umræðan er skyndilega farin að snúast um að nýta sér það til vinsælda í von um að það kalli á athygli og bæti við prósentum í næstu könnun eða fleiri „lækum“ á fésbókinni.“

Stjórnmálaflokkar of líkir

„Stjórnmálaflokkar eru að verða of líkir, rökræðan eða deilurnar um stefnur vill fólk ekki taka lengur, í stað þess er farið í „manninn“ og þeim gerðar upp skoðanir eða lífssýn í stað þess að koma með rökin,“ segir Gunnar Bragi.

Hann segir íslenska þjóð fyrst verða í vanda þegar stjórnmálaflokkar þora ekki lengur að hafa stefnu og þingmenn þeirra að fylgja þeirri stefnu eftir. WAlvarlegri verður vandinn ef ekki má taka upp varnir fyrir það sem íslenskt er.W

„Ef tíðarandinn og samfélagsmiðlar eiga að móta umræðuna og niðurstöðuna þá erum við í vanda. Of margir stjórnmálaflokkar á Íslandi eru keimlíkir í dag og keppast við að sækja sér fylgi í eitthvað sem þeir sjálfir skilgreina sem „frjálslyndi“. Þeir sem ekki eru sammála þeim eru popúlistar, einangrunarsinnar, þjóðrembur o.s.frv. En gjarnan eru það einmitt mestu popúlistarnir sem elta tíðarandann og sveiflast eins og vindhanar eftir fésbókinni.“

Gunnar Bragi segir vandséð á hvaða vegferð sumir hinna eldri stjórnmálaflokka séu í dag. „Í ríkisstjórn eru þrír flokkar sem eiga að vera ólíkir að stefnu og gildum en vandséð er í dag hver er hvað. Líkur eru á að þessir þrír flokkar haldi áfram að líkjast hver öðrum enda allar tilraunir til annars kæfðar í fæðingu.“

Framsókn að þurrkast út og Katrín vill ekki styggja neinn

„Nú er svo komið að einn af þessum flokkum er á góðri leið með að þurrkast út þrátt fyrir valdatafl sem átti að þýða endurreisn. Þeir sem að því stóðu sitja nú í ríkisstjórn, fastir í bergmálshellinum,“ bætir hann við og vísar þar til Framsóknarflokksins, sem mældist með aðeins 6,2 prósent fylgi á dögunum.

Gunnar Bragi segist ekki búast við miklu af stefnuræðu Katrínar Jakobsdóttur. „Í dag mun svo forsætisráðherra flytja stefnuræðu sína sem ég hef svo sem ekki miklar væntingar um enda þarf í þeirri ræðu að segja margt en samt að segja ekkert því engan má styggja,“ segir hann og bætir að lokum við að Miðflokkurinn hyggist standa áframhaldandi vörð um land og þjóð á komandi þingi.