Guðrún ögmundsdóttir er látin: „skemmtileg, mannvinur og stórkostleg með sína rámu rödd“

Guð­rún Ögmunds­dótt­ir, fyrr­ver­andi þing­maður Samfylkingarinnar er látin. Banamein hennar var krabbamein. Guðrún var fædd í Reykja­vík 19. októ­ber 1950. Greint er frá andláti Guðrúnar á Kjarnanum og á Eyjunni. Eftirlifandi eiginmaður Guðrúnar, Gísli Arnór Víkingsson greindi frá andláti Guðrúnar á samfélagsmiðlum fyrr í dag. Guðrún og Gísli eignuðust tvö börn.

\"\"Guðrún var um árabil einn vinsælasti þingmaður þjóðarinnar en hún sat á þingi fyrir Sam­fylk­ing­una frá árinu 1999 til árs­ins 2007. Þá var hún borgarfulltrúi frá árinu 1992 til 1998. Guðrún setti mikinn svip á íslensk stjórnmál og var afar vinsæl og farsæl í starfi. Eftir að þingferli lauk starfaði Guðrún sem sér­fræð­ingur í mennta­mála­ráðu­neyt­inu en gerðist seinna tengiliður vegna vist­heim­ila hjá dóms­­mála­ráðu­­neyt­inu. Þá var hún einnig for­maður Unicef árin 2016-2018. 

Egill Helgason fjallar um feril Guðrúnar á Eyjunni á DV. Egill segir:

„Ég sagði einu sinni við Gunnu Ögmunds að ég myndi styðja hana í hvaða embætti sem hún sæktist eftir. Þetta var ekki pólitísk afstaða heldur stuðningsyfirlýsing við Gunnu sjálfa, stafaði af mannkostum hennar og lífssýn, alveg burtséð frá því í hvaða flokki hún starfaði.

Gunna var raunar þeirrar gerðar að hún gat talað við alla, háa sem lága, hún fór ekki í manngreinarálit, hún gat átt samskipti við andstæðinga sína í pólitík – öllum líkaði vel við Gunnu, mátu heiðarleika hennar, hreinskiptni – og svo auðvitað húmorinn.“

Þá kveðst Egill aldrei hafa heyrt neinn mann tala illa um Guðrúnu og að pólitíkin væri betri ef væri fleira fólk eins og hún. Hún hafi viljað vel.

„Gunna sat á Alþingi og í borgarstjórn. Þegar ég hitti hana fann ég að það var tvennt sem hún þoldi illa – fals og öfgar. Sjálf var hún einlæg hugsjónamanneskja og frumherji – hún háði baráttu fyrir jafnrétti, mannréttindum og frelsi. Margt af því sem hún barðist fyrir þykir næstum sjálfsagt núna en var það ekki þegar baráttan hófst. Og hún gerði það á sinn hátt, algjörlega án yfirlætis og skinhelgi.“

Egill segir að lokum:

„Hún var blátt áfram hún Gunna, skemmtileg, mannvinur – stórkostleg með sína rámu rödd og blik í auga.“