Guðni gefur aftur kost á sér

Guðni Th. Jóhannes­son, for­seti Ís­lands, mun bjóða sig fram til endur­kjörs í næstu for­seta­kosningum sem fara fram í ár. Þetta er meðal þess sem fram kom í nýársávarpi forsetans í Ríkis­sjón­varpinu í dag.

Guðni hefur gegnt embætti forseta frá því að hann var settur í embætti þann 1. ágúst 2016 en hann náði kjöri þann 25. júní sama ár. Hann er sjötti forseti lýðveldisins og var kjörinn með 38,49% greiddra at­kvæða, sem voru 71,356 at­kvæði. Halla Tómas­dóttir hlaut 27,51% at­kvæða í síðustu kosningum og Andri Snær Magna­son 14,04% at­kvæða.

„Rúmlega þrjú ár eru að baki, viðburðarík og minnisstæð. Hvað tekur við? Því ræður auðna en segja má tímabært og tilhlýðilegt að lýsa því nú yfir að ég hyggst gefa kost á mér til frekari setu hér á Bessastöðum,“ sagði Guðni í ávarpinu.

Guðni fædd­ist í Reykja­vík 26. júní árið 1968. Hann er son­ur hjón­anna Mar­grét­ar Thorlacius, kenn­ara og blaðamanns, og Jó­hann­es­ar Sæ­munds­son­ar, íþrótta­kenn­ara og landsliðsþjálf­ara, sem lést árið 1983. Guðni ólst upp í Garðabæ og á tvo bræður, Pat­rek, íþrótta­fræðing og hand­boltaþjálf­ara, og Jó­hann­es kerf­is­fræðing.

Guðni hvatti þá þjóðina áfram til jákvæðni og sagði að nú skyldi vorhugur ríkja þrátt fyrir skammdegi og myrkur. Þjóðin ætti að fara vongóð inn í komandi ár og líta framtíðina björtum augum.