Guðmundur Ingi ósáttur við umfjöllun DV um Gunnar Rúnar: Varð Hannesi að bana en er nú á Vernd

Guðmundur Ingi ósáttur við umfjöllun DV um Gunnar Rúnar: Varð Hannesi að bana en er nú á Vernd

„Vegna umfjöllunar um málefni afplánunarfanga í fjölmiðlinum DV sem birtist meðal annars á netmiðlinum dv.is þann 19. júlí 2019 vill Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, taka eftirfarandi fram.“

Þannig hefst yfirlýsing frá Guðmundi Inga Þóroddssyni formanni Afstöðu. Þar gagnrýnir formaðurinn umfjöllun DV um Gunnar Rúnar Sigurþórsson sem varð Hannesi Helgasyni að bana árið 2010. Morðið var afar hrottafengið og stakk Gunnar Rúnar Hannes ítrekað með hníf þar sem sá síðarnefndi lá í rúmi sínu. Í frétt DV segir:

Faðir Gunnars, Sigurþór, fæddur árið 1962, framdi sjálfsvíg árið 1996 á heimili sínu. Það gerði hann í viðurvist Gunnars sem var aðeins níu ára gamall. Feðgarnir munu hafa verið mjög nánir og eins og nærri má um geta var atburðurinn Gunnari gífurlegt áfall. Gunnar er sagður hafa orðið félagslega einangraður í kjölfar atburðarins. Þetta kemur meðal annars fram í frétt Vísis af málinu árið 2011. Þar segir að einangrun hans hafi verið rofin þegar hann kynntist Hildi, unnustu Hannesar. Gunnar varð sjúklega ástfanginn af henni sem leiddi til þess að hann fór að hugleiða að myrða Hannes.

Í yfirheyrslum hjá lögreglu skömmu eftir morðið sagði Gunnar: „Ég elskaði Hildi. Hún átti að vera hjá mér. Hún átti ekki að vera með honum.“

Geðlæknir greindi Gunnar með ástsýki – amor insanus – og var hann dæmdur ósakhæfur í héraðsdómi. Þeim dómi var hins vegar hrundið í Hæstarétti þar sem Gunnar var úrskurðaður sakhæfur og dæmdur í 16 ára fangelsi.

Þá segir einnig í umfjöllun DV:

Vegna þess hvað morðið var einstaklega kaldrifjað og hrottalegt þykir mörgum ótækt að hann skuli nú, níu árum síðar, ganga um á meðal fólks. Faðir Hannesar, Helgi Vilhjálmsson – Helgi í Góu – , sagði um þetta í viðtali við DV fyrir stuttu:

„Menn sem setja svona lög og reglur – hafa þeir einhvern tíma lent í svona sjálfir? Að sonur þeirra eða dóttir sé myrt að yfirlögðu ráði, með köldu blóði? Það efast ég um. En hafa þeir rætt við þá sem lenda í slíku og sett sig í spor þeirra? Það efast ég líka um.“

Nú níu árum síðar afplánar Gunnar Rúnar í opnu úrræði á áfangaheimilinu Vernd. Gunnar Rúnar starfar hjá Rauða krossinum og hefur síðan ríflegan útivistartíma á meðan hann dvelur á áfangaheimilinu. Í frétt DV kemur fram að blaðamaður hitti á Gunnar Rúnar fyrir utan Vernd og falaðist eftir viðtali. Afþakkaði Gunnar Rúnar að ræða við blaðamann.  

Guðmundur Ingi gagnrýnir DV og telur að miðillinn hafi verið ónærgætinn í umfjöllun sinni og of langt hafi verið gengið að fara á vinnustað Gunnars Rúnars og taka af honum myndir við störf fyrir Rauða krossinn. Þá er einnig tilgreint heimilisfang Gunnars Rúnars og hverjir búa á heimilinu og segir Guðmundur Ingi að fjölskyldur fanga geti ekki borið ábyrgð á gjörðum þeirra og eigi rétt á friðhelgi.

Yfirlýsing afstöðu í heild sinni:

1. Í reglugerð um fullnustu refsinga, nr. 240/2918, segir í 16. gr. að fjölmiðill skuli skila skriflegri umsókn um viðtal við fanga til Fangelsismálastofnunar. Þar skuli koma fram við hvern óskað er viðtals, efni viðtals í meginatriðum og hvort óskað er eftir myndatöku. Sé heimildin veitt skal Fangelsismálastofnun ákveða hvernig viðtalinu skuli háttað og stofnuninni sé heimilað að skoða viðtalið eða myndatöku í endanlegri mynd áður en það er birt.

2. Í siðareglum Blaðamannafélags Íslands segir í 3. grein: „Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.“

3. Í Stjórnarskrá Íslands segir í 1. mgr. 71. grein: „Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.“ Nær það einnig til vinnustaðar.

4. Í Mannréttindasáttmála Evrópu segir í 1. mgr. 8. greinar: „Sérhver maður á rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta.“

5. Í almennum hegningarlögum segir í 229. grein: „Hver, sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi, er réttlæti verknaðinn, skal sæta sektum eða [fangelsi] 1) allt að 1 ári.“

Í réttarríki eru það dómstólar sem gera mönnum refsingu samkvæmt lögum í kjölfar réttlátrar málsmeðferðar. Fréttaflutningur á borð við þann sem birtist á netmiðlinum dv.is vekur upp spurningar um það hvort blaðamaður og ljósmyndari hafi ekki gengið of nærri friðhelgi einkalífs umrædds fanga og ekki síður fjölskyldu hans. Aðstandendur fanga bera ekki ábyrgð á gjörðum hans og njóta mun ríkari réttar til friðhelgi einkalífs. Þetta ætti allt fjölmiðlafólk að vita og virða.

Réttur fjölmiðla til að miðla upplýsingum er háður því að starfshættir séu í samræmi við siðareglur og að gætt sé jafnvægis á milli tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs. Beiting óhefðbundinna vinnubragða í blaðamennsku er eingöngu talin réttmæt þegar hefðbundin vinnubrögð geta ekki leitt til upplýsingaöflunar í þágu almannahagsmuna.

Afstaða hvetur fjölmiðla til að fjalla um fangelsismál en jafnframt að fréttamenn geri það með ábyrgum hætti.

Guðmundur Ingi Þóroddsson,

Nýjast