Flýr úr firðinum með fjölskylduna: ekki lengur velkominn - „hér líður okkur ekki lengur vel. takk og bless“

„Það er sannarlega skrítin tilfinning að finnast maður ekki lengur velkominn í samfélaginu sem ól mann upp. En þannig er það nú samt. Hér líður okkur ekki lengur vel. Atburðir síðustu vikna hafa gert það að verkum. Ekki síst þær furðuskýringar sem grasserað hafa í kjölfar starfslokanna.“

Þetta segir Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri  á Ísafirði. Fréttablaðið greindi nýverið frá að sam­starfs­örðug­leikar hafi verið á milli Guð­mundar og Daníels Jakobs­sonar, odd­vita Sjálf­stæðis­flokksins, undan­farna mánuði en Guðmundur hefur verið afar vinsæll hjá bæjarbúum. Bæjar­full­trúar sem Frétta­blaðið ræddi við voru sann­færðir um að upp­sögn Guð­mundar hefði átt sér lengri að­draganda en greint var frá í frétta­til­kynningu bæjarins.

Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins lentu  Guð­mundi og Daníel saman eftir bæjar­stjórnar­fund og að Arna Lára Jóns­dóttir, bæjarfulltrúi Í-listans, hefði  þurft að ganga á milli þeirra. Að­spurð vildi Arna ekki stað­festa að svo hefði verið, en að vissu­lega hafi kastast í kekki hjá Guðmundi og Daníel. Þeir sem þekkja vel til í pólitíkinni fyrir vestan hafa haft á orði að Guð­mundur yrði ekki lang­lífur í starfi þar sem Sjálf­stæðis­menn hafi haft horn í síðu hans. Þá mun Guð­mundi hafa þótt Daníel „anda ofan í háls­málið á sér.“

Nú hefur Guðmundur ákveðið að flytja úr bænum. Hann segir á Facebook:

„Við höfum ákveðið að flytja frá Ísafirði. Það var ekkert endilega augljósasti kosturinn í stöðunni eftir starfslokin í janúar. Hér hefur okkur liðið mjög vel, keypt okkur hús, börnin hafa aðlagast og við notið þess að vera nálægt vinum, fjölskyldu, fjöllum og heimahögum.“

Hann bætir við að honum finnst hann ekki lengur velkominn í samfélaginu. Guðmundur bætir við:

„Við sjáum sæng okkar upp reidda og viljum ekki vera hluti af samfélagi þar sem fyrirferðamiklar stjórnmálahreyfingar umbera fantabrögð freka kallsins og dreifa svo rógburði til að réttlæta þau.“

Guðmundur segir að þau fari frá Ísafirði með fullan bakpoka af góðum minningum. Á Vestfjörðum eigi þau marga góð vini, fólk sem þau treysti. Guðmundur segir að lokum:

„Við erum reynslunni ríkari og höfum lært heilmikið um mannlegt eðli og innræti. Bæði dökkar hliðar og ljósar. Dökku minningarnar ætlum við að skilja eftir fyrir vestan. Flokka þær sem spilliefni. Þær ljósu tökum við með okkur á nýjan stað. Til moltugerðar og næringar. Vestfirðir munu samt alltaf eiga hjörtu okkar. Það breytist ekki. Framtíðin er björt. Sjáumst síðar. Takk og bless.“