Guðmundur er látinn: „íslendingasamfélagið hér á tenerife er harmi slegið“

„Guðmundur vinur minn Guðbjartsson og veitingamaður (Bar-Inn) í Los Cristianos varð bráðkvaddur síðastliðinn þriðjudag, 21. janúar aðeins 53 ára gamall.“

Þetta segir Anna Kristjánsdóttir í pistli sem birtur er á Hringbraut með leyfi fjölskyldunnar. Þar greinir Anna frá að Guðmundur Guðbjartsson sem starfaði við góðan orðstír á veitingastaðnum Bar-Inn sé fallinn frá. Guðmundur var vinsæll og vinamargur og hafa fjölmargir vottað fjölskyldunni samúð sína á samfélagsmiðlum. Anna segir:

„Hann hafði kennt sér meins á mánudagskvöldið og um nóttina, en taldi sig eitthvað hressari á þriðjudagsmorguninn þó ekki nóg til að mæta á Bar-Inn til vinnu fyrir leik Íslands og Noregs. Inga konan hans stóð því ein vaktina meðan á leiknum stóð, en er hún hringdi heim að leik loknum og hann svaraði ekki lokaði hún Barnum og flýtti sér heim þar sem hún fann hann örendan.“

Guðmundur hafði þjáðst af sykursýki 1 og var meðal annars á sjúkrahúsi í Santa Cruz síðastliðið haust vegna sjúkdómsins. Anna heldur áfram:

„Íslendingasamfélagið hér á Tenerife er harmi slegið vegna andláts Gumma og vil ég votta Ingu konu hans og allri fjölskyldu þeirra og vinum á Íslandi samúð mína.

Myndina tók ég á miðnætti síðastliðið gamlárskvöld en það kvöld hafði ég notið gestrisni á heimili þeirra.“

\"\"