Guðmundi blöskraði ósvífni pólitíkusa: „Börn eiga ekki að þurfa að búa við sára fátækt og gamlingjar eiga ekki að svelta“

Guðmundi blöskraði ósvífni pólitíkusa: „Börn eiga ekki að þurfa að búa við sára fátækt og gamlingjar eiga ekki að svelta“

Guðmundur Þórður Guðmundsson er í eldlínunni með íslenska liðinu á Evrópumótinu þessa dagana. Í nærmynd í Fréttablaðinu lýsa vinir hans honum sem gríðarlega vinnusömum og nákvæmum manni. Utan handboltans líður honum best í faðmi fjölskyldunnar í sumarbústaði sínum á Þingvallavatni. Guðmundur er mjög pólitískur en hefur ekki mikið álit á íslenskum stjórnmálum og blöskrar oft ósvífni þeirra. Þá segir hann að allir eigi að geta haft það gott á Íslandi.

Guðmundur sekkur sér í þau mál sem hann tekur sér fyrir hendur og fer í kaf í þau áhugamál sem hann hefur hverju sinni. Guðmundur fer hins vegar ekki á bólakaf í heimilisverkin. Fjóla Ósland Hermannsdóttir, eiginkona Guðmundar segir:

„Hann er ákveðinn og fylginn sér og mjög nákvæmur í þeim verkum sem hann er að vinna hverju sinni. Guðmundur er með sterka réttlætiskennd og hefur sterkar skoðanir á hlutum. Honum líkar ekki að eitthvað sé gert með hangandi hendi, vill klára verkin í dag ef það er hægt og ekki bíða með það til morguns. Hann vill hafa hlutina eins fullkomna og mögulegt er og það jákvæða er að ég er eins þannig að það verða engir árekstrar hvað það varðar. Guðmundur er með mikið jafnaðargeð og er léttur og brosmildur alla jafna.“

Guðmundur er einnig mjög pólitískur en í viðtali við Stundina fyrir fjórum árum sagði hann heiðarleika á undanhaldi í samfélagi þjóða.

 „Oft kvartar fólk yfir einhverju í smá tíma en svo dagar það uppi og hverfur. Stjórnmálamenn vita þetta og spila á það. Þeir vita að fólk verður búið að gleyma því eftir smá tíma. Í tíð síðustu ríkisstjórnar hefur mér blöskrað þessi ósvífni, þetta viðhorf, að nú erum við með völdin og haldið þið bara kjafti. Það er eitthvað sem mér finnst algjörlega óásættanlegt að upplifa.“

Þá sagði Guðmundur að hann gæti aldrei gengið til liðs við flokk þar sem flokkslínur ráða.

„Ég get ekki þolað það þegar fólk er að tala og maður sér að það er ekki að segja sannleikann. Þegar það er ekki heiðarlegt heldur að tala sem málpípur einhvers flokks.“ Guðmundur bætti við að allir Íslendingar ættu að geta haft það gott hér á landi," sagði Guðmundur og bætti við:

„Börn eiga ekki að þurfa að búa við sára fátækt og gamlingjar eiga ekki að svelta. Það er sorglegt að þetta sé staðreynd í íslensku samfélagi. Eins finnst mér dapurt þegar það er farið að einkavæða heilbrigðisþjónustuna og mismuna fólki þannig.“

Nýjast