Gréta Jóna fær 4000 króna launahækkun eftir þriggja ára nám: „Við erum með framtíðina í höndunum - Það allra dýrmætasta sem fólk á“

Gréta Jóna fær 4000 króna launahækkun eftir þriggja ára nám: „Við erum með framtíðina í höndunum - Það allra dýrmætasta sem fólk á“

Gréta Jóna Vignisdóttir hefur starfað sem leiðbeinandi á leikskóla í Kópavogi í þrettán ár. Þar ber hún mikla ábyrgð og þykir henni vænt um „börnin sín“ eins og hún kallar þau.

„Ég legg mig alla fram þar og þykir ofboðslega vænt um „börnin mín“ þar enda er ég með þeim fimm daga vikunnar, átta tíma á dag. Ég ber mikla ábyrgð og foreldrar krefast mikils af mér. Ég er á lágmarkslaunum þrátt fyrir þetta mikla ábyrga starf,“ segir Gréta Jóna sem greinir einnig frá því að leikskólinn sé yfirleitt undirmannaður og undir miklu álagi.

„Þrátt fyrir það vinnum við frábært faglegt starf alltaf.“

Fyrir stuttu ákvað Gréta að læra leikskólaliðann sem er þriggja ára nám.

„Með minni reynslu tek ég það á tveimur árum og ég útskrifast í vor. Ég er að taka námið í fjarnámi og er að vinna allan daginn ásamt því að vera með stóra fjölskyldu,“ segir gréta og viðurkennir að námið sé mikið erfiðara en hana grunaði í upphafi.

„Ég fékk þær fréttir að ég muni einungis hækka um tvo launaflokka eftir útskrift sem þýðir sjö þúsund krónur. Svo er tekinn skattur af því sem er um fjögur þúsund krónur á mánuði. Ég veit að þetta nám á ekki eftir að gera mig ríka en það gerir mig að ennþá betri starfsmanni.“

Gréta segist vera í algjöru áfalli og veltir því fyrir sér hvort þetta sé virkilega boðlegt fyrir fólk sem er að reyna að gera sitt allra besta.

„Hvernig væri að gera eitthvað fyrir fólk í minni stöðu. Við leiðbeinendur erum með framtíðina í höndunum. Það allra dýrmætasta sem fólk á. Þetta er skammarlegt. SFK [Innsk. Blm: Stéttarfélag Kópavogs] er með lausa samninga. Ég skora á SFK að breyta þessu.“

Nýjast