Grefur eftir gulli á Grænlandi

Grefur eftir gulli á Grænlandi

Eldur Ólafsson er forstjóri kanadíska námufyrirtækisins AEX Gold Inc. og á jafnframt 10 prósent eignarhlut í félaginu. Fyrirtækið sérhæfir sig í gullgreftri á Grænlandi og var skráð á hlutabréfamarkað í Kanada fyrir tveimur árum. Fyrir nokkrum árum keypti fyrirtækið námu þar sem áður var gullvinnsla. Í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins segir Eldur að stefnt sé að því að náman verði komin í fulla framleiðslu eftir um tvö ár. 

Hann segir að fyrirtæki sem hann stofnaði ásamt öðrum, Orka Energy, sem hefur unnið að ýmsum orkuverkefnum í gegnum tíðina, til að mynda uppbyggingu fyrstu hitaveitu Kína, hafi byrjað að leiða hugann að gullgreftri á Grænlandi árið 2012.

„Við byrjuðum að horfa til Grænlands árið 2012 en kaupum fyrstu gullverkefnin ekki fyrr en 2015. Svo skráðum við félagið á markað árið 2017. Í framhaldinu af því höfum við verið að kaupa upp öll helstu verkefni sem tengjast gullleit á Grænlandi. Stærsta eignin okkar er náma í Nalunaq, á suðurodda landsins, en það var vinnsla í henni fram til ársins 2013. Gullæðin sem liggur í gegnum svæðið var fyrst fundin árið 1992. Í kjölfarið hófu menn að rannsaka svæðið og var sú vinna í gangi allt til ársins 2002, þegar gullvinnslan hófst loks,“ segir Eldur við Viðskiptablaðið.

Hann segir marga kosti hafa fylgt því að kaupa tilbúna námu, þar á meðal að fyrri eigendur hennar námunnar hafi byggt höfn og 9 km langan veg að námunni. „Náman er staðsett neðanjarðar og er um 11 km af námugöngum.  Einnig er vinnslustöð staðsett neðanjarðar. Það eru því nánast engin umhverfisáhrif af námunni[,] sem er mikilvægt fyrir okkur. Fyrri eigendur unnu gull í námunni frá 2004 til 2013. Náman framleiddi á þessum tíma um 350.000 únsur af gulli, með meðalgildi upp á 15 g í hverju tonni. Þegar náman var í virkni var gullverð 300 dollarar á hverja únsu. Gullverð í dag er 1.400 dollarar og hærra gullverð gerir það að verkum að fleiri eru áhugasamir um geirann.“

„Þegar við komum að þessu verkefni hafði ekki verið fjárfest í nýjum tækjabúnaði og á sama tíma hrundi gullverð, sem hefur áhrif á fjárfestingu inn í geirann. Þeir gátu ekki sýnt fram á við markaðinn að þeir gætu átt ákveðið mikið magn eftir af gulli og fengu því ekki frekari fjármögnun. Um leið og við tókum við námunni fórum við á fullt í rannsóknavinnu, en það var ekki mikill áhugi á gulli á þessum tíma. Miðað við rannsóknir gætu verið um 1,2 milljónir únsa af gulli í námunni.  Við erum hinsvegar bara búnir að sannreyna 263.000 únsur af þeim en við vinnum að því að sannreyna allar þessar únsur á sama tíma og við byrjum að framleiða,“ bætir Eldur við.

Hann segir að AEX Gold sitji eitt að leyfum á 170 km löngu gullbelti, sem gæti innihaldið gríðarlega stóran gullforða. Stefnt er að því að koma upp mörgum litlum námum meðfram beltinu.

Nýjast