Grátur stúlkunnar í fallna húsinu: vill skylda ferðaþjónustufyrirtæki á námskeið hjá landsbjörgu

„Ekk­ert hjálp­ar­starf, ekk­ert sjálf­boðastarf jafn­ast á við starf björg­un­ar­sveit­anna á Íslandi. Vel þjálfaðar her­sveit­ir manna sem vaka yfir lífi fólks og hika aldrei þegar neyðin er stærst og líf ligg­ur við til lands eða sjáv­ar. Þessi magnaði engla­her björg­un­ar­sveit­anna fer út í veðrin og storm­ana með áform um að bjarga lífi.“

Þetta segir Guðni Ágústsson fyrrverandi alþingismaður og ráðherra í grein í Morgunblaðinu. Þar ber hann lof á björgunarsveitarmenn sem hafa í vetur fengið hvert verkefnið á fætur öðru í fangið. Guðni segir:

„Þetta vel þjálfaða fólk okk­ar legg­ur sitt líf að veði í mörg­um orr­ust­um þar sem sek­únd­ur skipta máli, ekki mín­út­ur. Floti og tæki björg­un­ar­sveit­anna er magnaður og til­bú­inn að sigra hvaða aðstæður sem við blasa. Þjóðin stend­ur að baki sveit­un­um – og hvar stæðum við án þeirra?“

Þá rifjar Guðni upp þegar snjóflóð féllu á Flateyri í vikunni og hvernig björgunarsveitarmenn grófu sig í gegnum þykka skafla og björguðu lífi unglingsstúlku. Guðni segir:

„Nú á dög­un­um barst grát­ur stúlku úr föllnu húsi í gegn­um þykka skafla eft­ir snjóflóð á Flat­eyri. Ekki hefði þurft að spyrja að leiks­lok­um hefðu okk­ar menn ekki verið komn­ir á staðinn að vörmu spori. Björg­un­ar­her­inn er þjálfaður til að tak­ast á við verstu aðstæður og oft undr­ast maður stjórn­visku for­ystu­mann­anna í neyðinni, ró og festu í öll­um viðtöl­um og aga sem fylg­ir björg­un­ar­starf­inu.“

Guðni telur að ætti að skylda þá sem stunda fjalla- og jökla­ferðir að sækja nám­skeið til Slysavarnafélagsins Lands­bjarg­ar. Guðni segir síðan að lokum:

„Veður­blíða get­ur á einu augnakasti breyst í mann­drápsveður hér, þá skipt­ir máli að ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæk­in kunni bæði að bregðast við og einnig að meta aðstæður.

Þetta mikla starf björg­un­ar­sveit­anna væri ekki bet­ur skipu­lagt þó að hér væri rík­is­her. Hafið heila þökk björg­un­ar­sveitar­fólk fyr­ir ykk­ar starf. Heiður ykk­ar ligg­ur í hetju­skap og björg­un manns­lífa.“