Gísli: Moskítóflugan á leiðinni til landsins - „Út frá því fara þær að berast“

Gísli: Moskítóflugan á leiðinni til landsins - „Út frá því fara þær að berast“

Það er tilviljun ein að moskítóflugan hafi ekki náð fótfestu hér á landi og aðeins tímaspursmál hvenær það gerist. Þetta sagði Gísli Már Gíslason prófessor í líffræði við Háskóla Íslands í Ísland í Bítið á Bylgjunni.

Ástæðan fyrir því að hér sé ekki að finna þessa skaðræðisflugu er að „réttu“ tegundirnar hafi ekki náð að komast hingað til lands. Gísli sagði:

„Þær tegundir sem eru á Norðurlöndum og Bretlandseyjum, ef þær berast hingað þá geta þær örugglega lifað hérna. Þær bara hafa ekki borist hingað enn þá.“

Bætti Gísli við að það væri aðeins tilviljun og þá heppni að það hafi ekki gerst enn þá.

„Núna er veðurfar hérna mjög svipað því og var í Norður-Englandi og Skotlandi þegar ég bjó þar á áttunda áratugnum. Þá var nóg af moskítóflugum þar og við erum að tala um fjörutíu tegundir í nágrannalöndunum af moskítóflugum sem geta bitið okkur.“

Gísli bætti við að tímaspursmál sé hvenær moskítóflugan setjist hér að. Þá sagði Gísli einnig en hlusta má á viðtalið hér:

„Til þess að það geti myndast stofn þurfa þær að geta verpt þar sem er rétt búsvæði og þær þurfa að geta þroskast. Við sjáum það á skordýrum þegar þau berast hingað fyrst þá finnst eitt og eitt eintak. Svo á tiltölulega skömmum tíma, við erum að tala um tíu ár, þá erum við að veiða á sama stað í gildrur hundruð einstaklinga. Og út frá því fara þær að berast.“

Nýjast