Sár og svekkt eftir heimsókn í hörpu: „þetta var hreinlega eins og í fjósi“

Hjón af höfuðborgarsvæðinu fjárfestu í miðum á tónleikana Í brekkunni sem haldnir voru í Eldborgarsal Hörpu síðast liðna helgi. Aðkoma þeirra á salerni Hörpunnar og viðmót starfsfólks varð til þess að upplifun þeirra þetta kvöld var algjörlega óboðleg að þeirra mati.

„Við mættum stundvíslega og ætluðum að eiga notalega stund í Hörpunni, skoða fólkið og fá okkur einn drykk og kaffibolla. Við mættum um hálf sjö og lögðum bílnum í kjallaranum. Það fyrsta sem ég sagði við manninn minn var hvað það væri svakalega mikil hlandlykt þegar við komum inn en við veltum því ekki mikið fyrir okkur og fórum upp á hæðina þar sem veitingasalan er,“ segir konan í samtali við Hringbraut.

Þegar upp var komið kom í ljós að allir veitingastaðir voru fullir svo þau spurðu þjónana hvort þau gætu ekki fengið að tilla sér einhvers staðar og fá sér drykk saman.

„Jú þjónninn hélt það nú og vísað okkur að fara fyrir framan sal D í Eldborg og þar ætluðum við að fá okkur drykk og kaffi. Þá kom í ljós að ekki var hægt að kveikja á kaffigræjunum en við gerðum nú ekki mikið mál úr því og fengum okkur drykk,“ segir hún.

Aðkoman á salerninu eins og í fjósi

Fljótlega þurfti eiginmaður hennar að nota salernið en þá voru þau öll læst. Að hennar sögn átti öryggisvörður að sjá um að opna baðherbergin en það hafði ekki verið gert.

„Þjónarnir tjáðu manninum mínum þá að hann yrði að fara niður á fyrstu hæð og nota salernin þar. Þar var hann ásamt fleiri karlmönnum frekar pirraðir á lélegri þjónustu og virkilega sóðalegri aðkomu. Gólfið var rennandi blautt og þetta var hreinlega eins og í fjósi. Það lítur í rauninni út í fljótu bragði eins og að allir túristar Reykjavíkurborgar valsi þarna inn til þess að létta af sér, kannski gera þeir það í staðinn fyrir að nota salernin sem voru lokuð nú fyrir stuttu. Þetta var gjörsamlega óboðlegt og við vitum ekki hvort við förum nokkurn tímann aftur í Hörpuna. Þetta var óskemmtileg lífsreynsla,“ segir hún.

\"\"

Segir aðkomuna á salerni Hörpunnar eins og í fjósi. 

Þá nefnir hún að opnað hafi verið fyrir salernin á efri hæðinni klukkan korter yfir sjö og að fimmtán mínútum síðar hafi verið hleypt inn á sýninguna. Hún tekur fram að þjónarnir hafi alls ekki verið ókurteisir en segir það aftur á móti algjörlega óboðlegt að bjóða fólki upp á aðstöðu sem þessa. Hún hafi sjálf ekki haft það í sér að fara á salernið niðri og hafi því endað á því að halda í sér fram að hléi á sýningunni.

„Þetta er alveg ótrúlegt og sóðaskapurinn gríðarlegur.“