Íslenski flugdólgurinn er fyrrverandi landsliðsþjálfari: „Ég vil bara fá súpu“

Íslenski flugdólgurinn er fyrrverandi landsliðsþjálfari: „Ég vil bara fá súpu“

Þorbergur Aðalsteinsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari í handbolta, var handtekinn á flugvellinum í Stafangri í morgun. Samkvæmt öruggum heimildum Hringbrautar er hann nú í haldi lögreglu og verður kærður fyrir brot gegn flugverndarlögum. Þorbergur var um borð í flugvél á vegum ungverska flugfélagsins Wizz air á leiðinni frá Búdapest til Reykjavíkur. Flugvélinni var snúið við og lent í Stafangri eftir að Þorbergur reyndi að komast inn í flugstjórnarklefa vélarinnar. Má rekja upphaf þess að vélinni var snúið við að Þorbergi var neitað um súpu sem hann langaði í.

Samkvæmt heimildum Hringbrautar var Þorbergur í mjög annarlegu ástandi í flugvélinni en hann sat á fremsta bekk hægra megin í vélinni. Kvartaði hann undan því að matur um borð í vélinni væri ekki ókeypis en ákvað að lokum að panta sér súpu. Þegar kom að því að greiða fyrir súpuna var hann einungis með íslenska seðla á sér. Hann reyndi þá að greiða fyrir súpuna með korti en það gekk ekki þar sem hann mundi ekki pin-númerið á greiðslukortinu sínu. Flugfreyjan ákvað því að taka súpuna úr höndum Þorbergs og kom flugfreyjan súpunni í skjól. Mátti heyra á Þorbergi að hann væri afar ósáttur við þessi málalok og sagði:

„Ég vil bara fá súpu.“

Flugfreyjan var þá farin að sinna öðrum verkefnum aftar í vélinni og hafði það farið framhjá Þorbergi sem ákvað að leita flugfreyjurnar uppi, eða einhvern annan sem gæti hugsanlega leyst úr þessu máli. Hann sparkaði í tvígang af afli í flugstjórnarklefann og var eftir það fylgt í sæti sitt. Hélt Þorbergur sig til hlés eftir þetta og fór lítið fyrir honum í sæti sínu. Flugstjórinn tók engu að síður þá ákvörðun að snúa vélinni við og halda til Noregs, þar sem allar tilraunir til að nálgast flugmennina eru teknar mjög alvarlega og ekki vitað hvað Þorbergur gæti tekið uppá næst.

Í samtali við Hringbraut sagði lögreglan í Stafangri að Þorbergur hefði verið mjög lyfjaður þegar hann var handtekinn í flugvélinni. Þorbergur sýndi engan mótþróa, var rólegur og fylgdi lögreglunni út.

Eftir að Þorbergur var handtekinn ræddi lögreglan við farþega sem sátu næst honum í vélinni, með það fyrir augum að fá skýrari mynd af því hvað hafði gerst.

Lögregluþjónn ræðir við vitni í flugvélinni / Mynd: Hringbraut.is

Ekki um tilraun til flugráns að ræða

Í fyrstu fréttum af málinu var Þorbergur sagður hafa gert tilraun til að ræna flugvélinni. Voru flugmenn vélarinnar sagðir hafa tilkynnt um flugrán þegar þeir fengu leyfi til þess að nauðlenda í Stafangri. Það reyndist þó orðum ofaukið svo vægt sé til orða tekið. Í raun var Þorbergur að reyna finna lausn á því hvernig hann gæti fengið súpu og taldi að fólkið á bakvið hurð flugstjórnarklefans gæti verið honum innan handar.

Jon Dagsland, talsmaður lögreglunnar í Stafangri, segir í samtali við RÚV að flugmennirnir hafi ekki notast við orðið „flugrán“ og að ekkert bendi til þess að Þorbergur hafi nokkurn tímann haft það í hyggju að ræna vélinni. „Áhöfninni tókst fljótlega að róa manninn niður, honum var vísað til sætis meðal farþega og var ekki með nein vandræði þegar lögreglan kom um borð og handtók hann,“ segir Dagsland.

Viktoria Hillveg, aðgerðarstjóri lögreglunnar í Stafangri, tekur undir þetta í samtali við norska miðla. Tilkynningin frá flugmönnunum hafi ekki verið tekin jafn alvarlega og upphaflega hafi verið gefið í skyn í fjölmiðlum og staðfestir hún að orðið „flugrán“ hafi ekki verið notað. Hún staðfestir einnig að Þorbergur hafi reynt að komast inn í flugstjórnarklefann.

Lögregluþjónn ræðir við flugstjórann

Landsliðsþjálfari í fimm ár

Þorbergur er fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta og landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta. Sem leikmaður tók hann meðal annars þátt á Ólympíuleikunum árið 1984. Þar lék hann undir stjórn Pólverjans Bogdan Kowalczyk.

Á farsælum leikmannaferli lék Þorbergur meðal annars fyrir IF Saab í Svíþjóð frá 1985 til 1990, auk þess að þjálfa liðið um tíma samhliða því að spila með því. Árið 2015 valdi sænska Aftonbladet Þorberg fjórða besta útlendinginn sem hefði nokkru sinni spilað í efstu deildinni í Svíþjóð. Í úttekt blaðsins var hann sagður hafa sett sterk­an svip á sænskan hand­knatt­leik á þess­um árum og átt stór­an þátt í vel­gengni Saab. 

Kowalcczyk var landsliðsþjálfari frá 1983 til 1990 og tók Þorbergur við af honum. Stýrði Þorbergur landsliðinu frá 1990 til 1995, þegar Þorbjörn Jensson tók við af honum.

Þorbergur sat einnig í stjórn Handknattleikssambands Íslands um margra ára skeið, en lét af stjórnarsetu í vor.

Ölvaður í viðtali

Þorbergur hefur áður komið sér í fréttirnar vegna annarlegs ástands. Í frétt Vísis frá árinu 2008 sem Henry Birgir Gunnarsson íþróttafréttamaður ritaði segir:

„Þorbergur Aðalsteinsson, stjórnarmaður HSÍ, varð sjálfum sér og handknattleiksforystunni til háborinnar skammar í þættinum Utan vallar á Sýn. Fyrir það fyrsta þá var maðurinn í mjög annarlegu ástandi og alls ekki í slíku ástandi sem menn eiga að vera í þegar þeir fara í sjónvarpsviðtöl fyrir hönd handknattleiksforystunnar. Maðurinn var ölvaður. Það getur undirritaður staðfest enda var hann á staðnum. Það geta fleiri einnig staðfest sem voru á staðnum.“

Henry heldur áfram: „Hegðun hans í þættinum er síðan kapitúli út af fyrir sig. Þar ræðst Þorbergur mjög ómaklega að sumum af bestu drengjum handboltans. Þess utan braut hann trúnað við stjórn sem og þá þjálfara sem hafa verið í viðræðum við HSÍ. Það er háalvarlegt.“

Á þessum tíma var Handknattleikssamband Íslands í leit að nýjum landsliðsþjálfara og sætti Þorbergur mikilli gagnrýni fyrir að hafa ekki stigið til hliðar í kjölfar þessa atviks.

Þorbergur sendi frá sér afsökunarbeiðni vegna málsins en minntist þó í henni ekki einu orði á annarlegt ástand sitt.

Nýjast