Fylgi vinstri grænna er aðeins 4,4%

Fylgi Vinstri grænna er aðeins 4,4% í Norðvesturkjördæmi samkvæmt síðustu könnun MMR um fylgi stjórnmálaflokka. Það er fréttasíðan BB.is sem greinir frá þessu en könnunin var gerð 3.-13. janúar síðastliðinn. Alls voru 2000 svarendur í heild og 200 í Norðvesturkjördæmi.

Samkvæmt þessu er fylgi Vinstri grænna einungis um 1/4 af því sem það var haustið 2017 þegar gengið var til alþingiskosninga. Þá fékk flokkurinn 17,8% fylgi í kjördæminu en 11,1% á landsvísu.

Fram kemur í frétt miðilsins að um sé að ræða mjög svipað fylgi og í könnun MMR sem framkvæmd var í júlí á síðata ári. Þá mældist fylgið 6,7% á Vestfjörðum og á Vesturlandi. Í þeirri könnun voru Húnavatnssýslur og Skagafjörður mældar með Norðurlandi svo kannanirnar tvær eru ekki alveg sambærilegar.

Fram kemur að fylgi annarra flokka í Norðvesturkjördæmi mælist þannig að Miðflokkurinn er stærstur með 20,7% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 19,8%, Samfylkingin 15,7% og Framsóknarflokkurinn 15,6%.

Píratar og Viðreisn hljóta hins vegar lítið fylgi. Píratar mælast með 6,1% og Viðreisn 3,2%. Flokkur fólksins er með 6,5% fylgi samkvæmt könnuninni. Önnur framboð eru með 0,9%.

Þá kemur fram að samkvæmt könnuinni myndu kjördæmaþingsætin 7 skiptast þannig milli flokkanna að Miðflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, og Samfylkingin fengju 2 þingsæti hver og Framsóknarflokkurinn fengi 1.