Forstjóri rarik segir að varaaflsstöðvar myndu ekki hafa breytt neinu - voru seldar fyrir fimm árum

Hundruð heimila á Norðurlandi voru rafmagnslaus í marga daga eftir ofsaveðrið sem gekk yfir landið í síðustu viku. Viðgerðir eru enn í fullum gangi og er búist við því að lang stærstur hlut viðgerða ljúki á næstu vikum. Þó eiga einhverjar viðgerðir eftir að þurfa bíða til sumars. Varðskipið Þór er notað í dag sem rafstöð á Dalvík og sér öllum íbúum bæjarins fyrir rafmagni þar sem ekki enn er búið að gera við skemmdir sem urðu á rafmagnsdreifikerfinu í síðustu viku.

Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, segir að eftir óveðrið í síðustu viku að það megi skoða hvort ekki eigi að koma upp fleiri varastöðvum. 

„Ég held að það sé full ástæða til að, svona heilt yfir, að þar sem flutningskerfið er ekki með tvöfalt öryggi að þar megi skoða fleiri varastöðvar,“ sagði Tryggvi í samtali við RÚV.

Þegar Tryggvi var spurður hvort það hafi verið mistök að selja varaaflsstöðvar, sem voru á svæðinu fyrir rúmum fimm árum síðan. Segir hann að þær varaaflsstöðvar hefðu engu breytt um ástandið sem skapaðist vegna óveðursins.  

„Þú ert nú væntanlega að vísa til varastöðva sem voru staðsettar á Rangárvöllum og voru áður í eigu Landsvirkjunar sem voru þá fyrst og fremst fyrir byggðalínu. Þær voru settar upp á sínum tíma þegar það var verið að byggja upp byggðalínukerfið. Ef að þær hefðu verið staðsettar þar akkúrat núna þá hefðu þær ekki komið að neinu gagni vegna þess að það var fullt afl á Akureyri.“