Forseti íslands: „við fundum það enn einu sinni hversu mikinn fjársjóð við eigum í björgunarsveitum landsins“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segir að Íslendingar hafi fundið undanfarna daga hversu mikinn fjársjóð við Íslendingar eigum í björgunarsveitum landsins. Hann þakkar öllum þeim björgunarsveitarmönnum og konum, sem hafa lagt á sig gífurlega sjálfboðavinnu undanfarna daga vegna veðurofsans sem hefur gekk yfir landið fyrir nokkrum dögum.

„Það voru yfir 1.000 manns sem hurfu frá fjölskyldu og vinum, frá starfi, frá því sem fólk var að sinna í dagsins önn. Fólk í björgunarsveitunum fór á vettvang, fót út í óveðrið, bjargaði fólki í vanda, leitaðist við að koma á rafmagni og hita þar sem það þurfti, svo víða um landið. Einvala lið lagði allt sitt af mörkum við Núpá, þar sem harmleikur varð. Þessu fólki eigum við svo mikið að þakka. Við fundum það enn einu sinni hversu mikinn fjársjóð við eigum í björgunarsveitum landsins. Og það er svo margt sem við getum rifist um í dagsins önn, en á þessum stundum finnum við líka að þegar bjátar á, þá skulum við standa saman. Mér finnst að það hafi tekist núna,“ sagði Guðni í samtali við RÚV.

Þá segir Guðni að það sé skilda ráðamanna að hlusta á fólkið sem hefur hvað verst í veðurofsanum og bæta það sem þarf að bæta. Ekki eigi að horfa í krónur, aura eða höfðatölu þegar kemur að tryggja hita og rafmagn til allra landsmanna.

„Það er skylda þeirra sem eru í þeirri stöðu að geta bætt úr að hlusta á fólk sem hefur að eigin bitri reynslu núna lent í þessu. Ég er alveg þess fullviss að ráðamenn munu sýna í verki að fólk vill bæta úr því sem þarf að bæta. Það á að vera viðráðanlegt. Við verðum líka að finna þótt við búum nú langflest hér á suðvesturhorninu, Íslendingar, að aðstæður geta verið þannig víða um land að það þurfi að leggja í talsverðar fjárfestingar til þess að tryggja fólki það sama og við njótum hér. Hita, rafmagn, birtu og yl í húsum. Þá eigum við ekki að horfa í krónur, aura og höfðatölu.“