Forsætisráðherra útilokar ekki sameiningu banka

Forsætisráðherra útilokar ekki sameiningu banka

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að ríkisstjórnin útiloki ekki sameiningu banka en hafi hins vegar ekki skoðað þau mál neitt sérstaklega. Hún segir vangaveltur um sameiningu íslenskra viðskiptabanka ekki nýjar af nálinni og að bent hafi verið á að hægt sé að ná fram meiri hagræðingu með sameiningum í bankakerfinu.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Að undanförnu hafa fjölmiðlar skýrt frá vangaveltum um hugsanlega sameiningu Íslandsbanka og Arion banka. Í gær skýrði Morgunblaðið frá því að sérfræðingar telji hægt að auka verðmæti eignarhluta ríkisins í ríkisbönkunum með sameiningu fyrrnefndra banka. Ríkið myndi þá eiga um 40% í banka sem væri skráður á markað í Svíþjóð og hér á landi.

Ríkið myndi einnig láta einkaaðilum eftir að straumlínulaga bankann en jafnframt veita honum öflugt aðhald.

Morgunblaðið hefur eftir Katrínu að það geti orðið erfitt að sameina banka þar sem annar er í eigu ríkisins og hinn í eigu einkafjárfesta.

„Það þyrfti að greina slíkt mjög vandlega enda getur það verið afar vandasamt fyrir ríkið að vera meðeigandi í áhættusömum fjármálarekstri. Þess utan eykur það mjög á flækjustigið að vera með bæði einkaaðila og ríkið í rekstri á einum og sama bankanum.“

Er haft eftir Katrínu sem sagði að hugsanleg sameining bankanna stangist hugsanlega á við samkeppnissjónarmið. Mikilvægt sé að hafa hagsmuni landsmanna að leiðarljósi þegar ákvarðanir verða teknar um eignarhluta ríkisins í bönkunum.

Nýjast