Fjórar nýjar slökkvibifreiðar teknar í notkun hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins

Fjórar nýjar slökkvibifreiðar teknar í notkun hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fékk í dag afhentar fjórar nýjar slökkviliðsbíla. Í bifreiðunum er tvöfalt áhafnarhús með plássi fyrir fimm manns. Þar af eru fjögur sæti með reykköfunartækjum, en auk þess er fimmta reykköfunartækið inni í áhafnarhúsinu. Öll áhöfnin getur því sett á sig reykköfunartæki ef þörf krefur.

Slökkvibifreiðarnar eru með 4.000 lítra/mín. slökkvidælu. Vatnstankurinn er 3.000 lítrar. Stór vatnsbyssa er á þaki bifreiðanna, en auk þess er ein þeirra með vatnsbyssu að framan, sem hægt er að fjarstýra innan úr áhafnarhúsinu. Hún verður staðsett á Skarhólabraut, næst Hvalfjarðagöngum. Ýmis annar búnaður sem fylgir vatnsöflun og slökkvistarfi er í bifreiðunum, svo sem slöngur, tengi, stútar og fleira. Froðukerfi bifreiðanna er blanda vatns, froðuvökva og þrýstilofts. Eldri froðukerfi byggðust bara upp á vatni og froðuvökva. Um er að ræða mun öflugri og umhverfisvænni froðu en SHS hefur verið með í notkun hingað til.

Á slökkvibifreiðunum er háþrýstibúnaður með skurðarmöguleika, en þetta eru fyrstu tækin af þessari tegund á Íslandi. Með búnaðinum er hægt að skera gat á byggingarhluta og sprauta inn vatni í fínum dropum til að kæla brunagös og slá niður eldinn. Búnaðurinn gefur mikla möguleika í slökkvistarfi, bæði er hann mjög öflugur og gefur aukið öryggi fyrir slökkviliðsmenn. Ýmis annar búnaður er á bifreiðunum, svo sem björgunarbúnaður svo sem vegna umferðarslysa og fastklemmdra. Nánast öll verkfæri á bifreiðunum eru rafmagnsverkfæri, en áður voru þau mikið bensíndrifin.

Nýju slökkvibifreiðarnar taka á næstunni við sem fyrsta útkallstæki á öllum fjórum starfsstöðvum SHS, en innanhúsþjálfun er þegar hafin. Elstu slökkvibifreiðarnar sem eru í notkun verða teknar úr þjónustu, en þær nýrri verða áfram hjá SHS til vara. Elsta slökkvibifreiðin sem nú er í notkun sem fyrsta útkallstæki er frá árinu 1990. Aðrar eru 1998, 2002 og 2003. Varaslökkvibifreiðar eru enn eldri.

Nýjast