Þeir létust í fangelsi: Enn ein harmafregnin frá Litla-Hrauni – Fjórir farnir á rúmum 2 árum

Þeir létust í fangelsi: Enn ein harmafregnin frá Litla-Hrauni – Fjórir farnir á rúmum 2 árum

„Það þarf að taka allt geðheilbrigðiskerfið til gagngerrar endurskoðunar og dómskerfið samhliða því. Veikt fólk á ekki heima í lokuðu rými með ofbeldismönnum, nauðgurum og harðsvíruðum glæpamönnum. Þangað til yfirvöld skilja það mun ekki líða á löngu þar til önnur harmafregn úr fangelsum landsins birtist.“

Þetta er að finna í leiðara DV sem birtur var í janúar á þessu ári. Þá hafði Þorleifur Haraldsson svipti sig lífi og fjallaði DV um fangelsismál á Íslandi. Nú í lok sumars hefur spá leiðarahöfundarins á DV ræst og vinir, fjölskylda og aðrir vistmenn syrgja fanga sem lést í gær innan veggja Litla-Hrauns. Spá sem hefði aldrei átt að rætast, ef ráðamenn og yfirmenn Litla-Hrauns hefðu kjark og dug til að taka á geðheilbrigðismálum í fangelsum landsins. 

Í gær var greint frá því að fangi hafi látist á Litla-Hrauni. Páll Winkel fangelsismálastjóri sagði í samtali við Mbl.is að bæði fangar og starfsmenn væru harmi slegnir. Á síðustu tveimur og hálfu ári hafa fjórir fangar stytt sér aldur í íslenskum fangelsum.

Fanginn sem lést er annar fanginn sem fellur fyrir eigin hendi innan veggja íslenskra fangelsa á þessu ári. Fjórir fangar hafa dáið frá því í mars árið 2017. Sjálfsvíg fanga eru alls átta síðan árið 2001 og vekur það furðu hve mikið þeim hefur fjölgað á allra síðustu árum. Þannig styttu fjórir fangar sér aldur á sextán ára tímabili en eftir það gerðu það aðrir fjórir á aðeins tveggja og hálfs árs tímabili.

„Átti ekki að vera í fangelsi“

Í umfjöllun DV frá því í janúar á þessu ári er fjallað um fangana þrjá sem féllu fyrir eigin hendi síðastliðið tvö og hálft ár. Þann 8. janúar síðastliðinn fannst Þorleifur Haraldsson látinn á Litla-Hrauni eftir að hafa framið sjálfsvíg. Þorleifur var 44 ára og lét eftir sig eina dóttur.

Hann var að afplána dóm fyrir ítrekuð umferðarlagabrot undir áhrifum vímuefna og hafði glímt við margs konar fíknivanda um langa hríð.

„Hann átti ekki að vera í fangelsi heldur í einhverju meðferðarúrræði. Það er skömm að því að slík úrræði séu ekki til hér á landi,“ sagði heimildarmaður við DV.

Þurfti á mikilli sálrænni aðstoð að halda

Tæpu ári fyrr, þann 13. febrúar 2018, hafði Styrmir Haukdal Kristinsson svipt sig lífi á Kvíabryggju. Styrmir hafði glímt við margvísleg geðræn vandamál. Árið 2001 skar hann móður sína á háls og þremur árum síðar var hann úrskurðaður ósakhæfur í málinu vegna geðklofa. Móðir hans hlaut ekki varanlegan skaða af en ljóst þótti að Styrmir þyrfti nauðsynlega á sálrænni aðstoð að halda.

„Ég á mér þann draum að geta lifað eðlilegu lífi í óvernduðu umhverfi og það er kannski dálítið barnalegt að segja það en vitaskuld langar mig að eignast fjölskyldu í framtíðinni. Mig langar að standa á eigin fótum, vera eðlilegur án vímuefna og lifa samkvæmt því,“ sagði Styrmir í samtali við DV árið 2004.

Fangaverðir sem DV ræddi við sögðu það ljóst að Styrmir hafi átt við andleg veikindi að stríða og að hann hafi verið vistaður á röngum stað. Fangelsismálayfirvöld buðu honum að tala við sálfræðing í gegnum Skype og gagnrýndi Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga, þá ákvörðun í samtali við Fréttablaðið.

„Það er náttúrlega mjög ópersónulegur máti til að eiga í samskiptum við sálfræðinga,“ sagði Guðmundur. 

Í júli árið 2017 lenti Styrmir í áflogum við Baldur Kolbeinsson þegar þeir afplánuðu dóma á Litla-Hrauni. Styrmir hafði Baldur undir en áflogunum lauk þó með því að Baldur beit efri vör Styrmis í sundur og spýtti holdinu út úr sér. Kunnugir sögðu í samtali við DV að Styrmir hafi aldrei náð sér almennilega eftir þessa alvarlegu árás og hefði þurft á mikilli hjálp að halda.

Hrottinn í Hrísey svipti sig lífi

Þann 6. mars 2017 framdi Eiríkur Fannar Traustason sjálfsvíg í fangelsinu á Akureyri, þar sem hann afplánaði dóm fyrir sérstaklega hrottalega nauðgun í Hrísey.

Í dómn­um kom fram að Ei­rík­ur hafi þann 25. júlí 2015 farið inn í tjald 17 ára gamallar franskrar stúlk­u sem hafði verið á hjóla­ferðalagi um landið. Var stúlk­an þá sof­andi en Ei­rík­ur greip um munn henn­ar, hélt henni niðri og sló hana hnefa­höggi í and­litið. Því næst sneri hann stúlk­unni á mag­ann og ýtti höfði henn­ar niður í svefn­pok­ann og hótaði henni ít­rekað að drepa hana ef hún þegði ekki. Þá sló hann hana ít­rekað í höfuð og lík­ama og reyndi að hafa við hana sam­far­ir.

Því næst fróaði hann sér yfir stúlk­una og hafði á hana sáðlát. Aft­ur reyndi Ei­rík­ur svo að hafa við hana sam­far­ir og þrýsti henni á ný niður og setti svefn­pok­ann yfir höfuð henn­ar. Áður en hann fór úr tjald­inu hótaði hann henni á ný. Af þessu hlaut stúlk­an stórt mar á and­liti og eymsli í kjálkalið.

Skömmu áður en Eiríkur lést hafði hann eignast tvíburasyni með sambýliskonu sinni, Höllu Björg. „Kannski hélstu að þú værir að gera mér greiða með því að svipta þig lífinu. Það er óbærileg tilhugsun,“ skrifaði hún í pistli í lok árs 2018.

Pistillinn varð til þess að umræða um geðheilbrigðismál fanga fór á flug en þessi málaflokkur virðist þó enn í nokkrum ólestri þar sem þrír fangar hafa eins og áður segir svipt sig lífi eftir að Eiríkur gerði það.

Þriðjungur reynt sjálfsvíg

Í doktorsritgerð Boga Ragnarssonar, sem birtist árið 2013, kom fram að á bilinu 54–69 prósent fanga innan veggja íslenskra fangelsa glímdu við þunglyndi. Þá hafði um þriðjungur reynt sjálfsvíg. Afar brýnt væri því að fangar fái viðeigandi sálfræðiaðstoð.

Í fangelsum á Íslandi í dag starfa fjórir sálfræðingar í þremur stöðugildum. Þeim er ætlað að sinna öllum föngum sem eru í afplánun og öllum sem eru á reynslulausn. Alls er um 600 einstaklinga að ræða og verkefni sálfræðinganna fjögurra því nánast óyfirstíganlegt.

Ofan á þetta bætist svo að sálfræðingarnir eiga að sinna starfsfólki og vinna áhættumat vegna þeirra einstaklinga sem eru að sækja um úrræði eins og reynslulausn eða Vernd.

Þá fjallaði DV um ástandið á Litla-Hrauni í leiðara blaðsins. Þar sagði meðal annars:

Í dag er fólk með geðsjúkdóma og fíknisjúkdóma vistað í fangelsum landsins. Það er lítið amast við því að fólk með þessa sjúkdóma heyri undir dómsmálaráðuneytið en ekki heilbrigðisráðuneytið. Það er þegjandi samþykkt. Ekki nóg með það þá eru algerlega óviðunandi sálfræðimeðferðir og geðlæknisþjónusta í boði.

Fyrir tveimur árum sagði Haraldur Erlendsson, geðlæknir á Litla-Hrauni, starfi sínu í fangelsinu lausu. Ástæðan var sú að hann gat ekki einn sinnt öllum föngunum. Vandamálin þar inni voru mörg og mismunandi. Fíkn, þunglyndi, persónuleikaröskun, kvíði, athyglisbrestur og fleiri sjúkdómar. Mikil sjálfsvígshætta og áhætta á andlegum vandamálum tíföld miðað við það sem gengur og gerist úti í samfélaginu. Litla-Hraun er ekki einsdæmi. Þegar fangi svipti sig lífi í fangelsinu á Akureyri vorið 2017 hafði sálfræðingur ekki stigið þar inn fæti í tvö ár. Þetta er gömul saga og ný. Helsta vandamálið er að þessir einstaklingar eiga ekki að vera þarna inni heldur á viðeigandi stofnunum og hljóta viðeigandi meðferð.

Þessi harmur sem birtist okkur fréttum um sjálfsvíg fanga er auðvitað aðeins angi af því allsherjar klúðri sem íslensk geðheilbrigðismál eru. Við sem samfélag erum ítrekað að bregðast veiku fólki. Við vitum öll innst inni að þessi mál eru ekki í lagi, margoft hefur verið bent á þetta í fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og annars staðar.

„Það þarf að taka allt geðheilbrigðiskerfið til gagngerrar endurskoðunar og dómskerfið samhliða því. Veikt fólk á ekki heima í lokuðu rými með ofbeldismönnum, nauðgurum og harðsvíruðum glæpamönnum. Þangað til yfirvöld skilja það mun ekki líða á löngu þar til önnur harmafregn úr fangelsum landsins birtist.“

Nýjast