Fatlaðir ofgreiða fyrir þjónustu – „Farin að halda að bæði borg og ríki haldi upplýsingum vísvitandi frá fólki til að spara“

Fatlaðir ofgreiða fyrir þjónustu – „Farin að halda að bæði borg og ríki haldi upplýsingum vísvitandi frá fólki til að spara“

Mynd: Samsett
Mynd: Samsett

Ásta Kristrún Ólafsdóttir, móðir manns með alvarlega þroskahömlun, segir upplýsingagjöf vegna greiðslna fyrir þjónustu fatlaðra vera verulega ábótavant. Hún segist hafa þurft að berjast við kerfið og fyrir því að fá viðunandi upplýsingar frá því að hann var ungur drengur. Fréttablaðið greinir frá.

Þar er sagt frá nokkrum tilvikum þar sem sonur Ástu hefur ofgreitt fyrir þjónustu. Á dögunum fór hún til dæmis með son sinn til nýs tannlæknis.

„Við gerðum ráð fyrir að greiða með 50 prósenta afslætti en tannlækninum, sem er ung og áhugasöm kona, fannst þetta skrýtið. Hún setti sig sjálf í samband við Sjúkratryggingar og þá kom í ljós að ég átti að sækja sérstaklega um fullan afslátt fyrir hann,“ segir Ásta.

Sonur hennar átti því ekki að borga krónu fyrir tannlæknaþjónustuna, sem mæðginin hefðu ekki vitað nema fyrir tilstilli árvökuls tannlæknis. Samkvæmt rammasamningi sem var samþykktur fyrir tæpu ári síðan geta langveikir á stofnunum og andlega þroskahamlaðir einstaklingar utan stofnana fengið 100 prósent endurgreiðslu af tannlækningum. „Það er enginn sem segir mér að ég eigi að sækja um, ég bara borga“ segir Ásta.

Hún nefnir annað dæmi, sem snýr að ferðaþjónustu fatlaðra:

„Ég var búin að borga 30 þúsund krónur á mánuði í ferðaþjónustu fatlaðra fyrir hann en komst síðar að því að hann ætti rétt á nemakorti og [að] greiða aðeins 20 þúsund krónur á ári. Ég er farin að halda að bæði borg og ríki haldi upplýsingum vísvitandi frá fólki til að spara.“

Ásta segist þurfa að reiða sig á upplýsingar frá öðrum foreldrum og aðstandendum þar sem stofnanir standi sig ekki í upplýsingagjöf. Hún segir það auk þess algengt að foreldrar og aðstandendur langveikra séu sjálfir bæði lasnir og þreyttir. „Það svíður að heyra allt of seint að hann sé búinn að vera að ofgreiða fyrir einhverja þjónustu. Ég frétti það til dæmis frá öðrum foreldrum að hann ætti rétt á ókeypis bleyjum. Þetta tínist til.“

Nýjast