Eva Laufey hélt að hún væri að fá hjartaáfall: „Mér líður eins og ég geti tekist á við hvað sem er“

Fjölmiðlakonan Eva Laufey Kjaran segir síðasta ár hafa verið sér erfitt vegna mikils kvíða sem hún upplifði í kjölfar þess að hún hélt að hún væri að fá hjartaáfall.

Reynsluna segir hún hafa verið lærdómsríka og að í dag viti hún nákvæmlega hvað hún vill og hafi lært að forgangsraða rétt.

„Eftir margar rannsóknir og ófáar spítalaheimsóknir var niðurstaðan einfaldlega sú að líkaminn væri að biðja um meiri ró og andlega hliðin væri í ólagi,“ segir Eva á Instagram þar sem hún gerir upp árið 2019.

Í kjölfar erfiðleikana sem Eva upplifði leitaði hún sér viðeigandi aðstoðar og tókst henni að komast í gegnum verkefnið með fagfólki, fjölskyldu og vinum.

„Nú mörgum mánuðum seinna og sálfræðimeðferð að baki líður mér loksins eins og ég sjálf á ný,“ segir Eva og bætir því við að hún geti aldrei fullþakkað fyrir það hvað hún eigi góða að.

Hún segir vinnuna þó aldrei fullunna en að nú geti hún tekist á við hvað sem er.

„Ég er þess vegna sterkari sem aldrei fyrr og mér líður eins og ég geti tekist á við hvað sem er eftir að hafa komist í gegnum þetta tímabil. Vinnan er þó aldrei fullunnin en nú veit ég hvað það er mikilvægt að hlusta á líkamann og fara ekki fram úr sér, stoppa aðeins við og njóta þess sem ég hef.“