Erla unnið í leikskóla í fimmtíu ár: engin launahækkun eftir fertugt – „reynslan ekki metin“

„Ég réð mig 16 ára á upptökuheimilið á Dalbraut og var þar í eitt ár og svo fór ég sjálf að eiga börn og eignaðist fjóra góða stráka, aldrei slagsmál og læti hjá mér. Barnabörnin eru orðin tíu talsins, fimm strákar og fimm stúlkur.“

Erla Jónsdóttir hefur unnið á leikskóla í fimmtíu ár. Eftir að hún varð fertug hafa laun hennar ekki hækkað. Starfsreynslan er ekki metin en fleiri Íslendingar eru í svipaðri stöðu. Saga Erlu er birt á síðunni Fólkið í Eflingu. Saga Erlu er svohljóðandi:

„Árið 1972 fengum við fjölskyldan úthlutað í verkamannabústöðum og fluttum í Breiðholti. Þá var ég með strákana litla og gerðist dagmamma, þá mátti ég taka þrjú eða fjögur börn heim. Þetta var á þeim tíma þegar Breiðholt var í uppbyggingu og hér fylltist allt af börnum en þegar strákarnir mínir stækkuðu réði ég mig fast á leikskóla.

Ég kom við á einum leikskóla hérna sem hét Leikfell og var að hluta til foreldrarekinn og var á neðstu hæðinni í stóru blokkinni í Æsufelli. Börnin úr blokkinni gengu fyrir og síðan komu börn úr húsunum og hverfunum í kring til að fylla öll pláss. Leikskólinn var tvískiptur þar sem börnin og við starfsfólkið komum með nesti með okkur og við skipumst líka á að koma með kaffi í vinnuna.

Þau fengu greyin enga hvíld og voru sótt í hádeginu og svo komu eldhress börn eftir hádegi sem voru búin að leggja sig. Líklega fóru morgunbörnin eitthvað annað í pössun eftir að hafa verið hjá okkur af því mömmurnar voru að vinna úti og þurftu að að koma þeim fyrir.

En á þessum tíma var komið það sem við köllum dagheimili með heilsdagspláss hérna í Breiðholti, þar sem boðið var upp á mat og börnin fengu að leggja sig, en það var aðeins skólafólk og einstæðar mæður sem gátu komið börnum fyrir á dagheimilinu.

Hafnað í bæði skiptin

Núna hef ég verið á Völvuborg í 31 ár eða frá 1987. Að undanskildu einu ári í millitíðinni sem ég réð mig á Fálkaborg, ég vildi prófa eitthvað annað en kom svo hingað aftur. Ég sótti tvisvar um leikskólakennaranámið og mér var hafnað í bæði skiptin.

Fyrst sótti ég um þegar ég var 17 ára og síðast þegar ég var fertug. Ég er ekki með stúdentspróf og fékk því ekki inngöngu. Þegar ég var fimmtug þá dreif ég mig í leikskólaliðann og kláraði hann og ég var í fyrsta hollinu þar. Ég tók er þakklát að ég tók stuðninginn sem gerir starfið ótrúlega spennandi en það er svo gefandi að fá að fylgja einu barni í gegnum þroskaferli og sjá það dafna og vinna úr sínum málum.

Eftir fertugt hef ég ekki fengið launahækkun, en starfsreynslan er ekki metin. Hingað kemur fólk sem er með stúdentspróf og fær strax hærra kaup en ég sem þarf eðlilega að setja fólkið inn i starfið af því að ég er með reynsluna. Ég skil ekkert í þeim að geta ekki borgað hærra kaup. Við vorum að missa eina frá okkur sem átti ekki efni á því að vinna hérna og hætti út af kaupinu.“