Meiri takmarkanir skoðaðar vegna sérfræðiþjónustu

Heilbrigðisráðherra í viðtali í 21 í kvöld:

Meiri takmarkanir skoðaðar vegna sérfræðiþjónustu

„Ég er ekki á móti einkapraktík utan spítalans“, segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra í samtali við Lindu Blöndal í þættinum 21 í kvöld. Rætt er við ráðherra um helstu mál sem standa á ráðuneytinu, m.a. nýja samninga sem gerðir verða við sérfræðilækna en rammasamningur við þá rann út um áramót. Sérfræðilæknar höfðu í fyrra gagnrýnt Svandísi harðlega fyrir að sýna þeim fálæti varðandi endurnýjun rammasamningsins og stjórn Læknafélags Íslands sent frá sér yfirlýsingu í sumar þess efnis. „Ég er talsmaður sterks og öruggs opinbers heilbrigðiskerfis“, segir Svandís og um sérfræðiþjónustu utan spítalans: „Það er mikilvægt að ríkið viti hver þessi þjónusta á að vera en það séu ekki veitendur þjónustunnar sem ákveði hvaða þjónustu á að veita“.

Sjúkratryggingar Íslands sitja nú við samningaborðið með sérgreinalæknum. Þór­ar­inn Guðna­son, formaður Lækna­fé­lags Reykja­vík­ur, sagði í sumar í samtalið við RÚV rangt að samn­ing­ur Sjúkra­trygg­inga Íslands við sér­fræðilækna sé eins og „op­inn krani“ fjár­veit­inga, líkt og Svandís Svavars­dótt­ir heil­brigðisráðherra hélt fram í viðtali á Rúv.

Ráðherra er yfirmaður sjúkratrygginga og aðspurð á hvernig samningar verði öðruvísi við sérfræðilæknana en áður segir Svandís um mjög fjölbreytta samninga að ræða. „Þetta eru mjög margar sérgreinar og margir aðilar sem þarf að semja við. Við þurfum að vita hvaða magn og hvers konar þjónustu við erum að kaupa og af hverjum og hvernig við ætlum svo að árangursmæla og gæðamæla“. Spurð hvort þetta hafi ekki verið gert áður: Vantaði þetta? „Já“, svarar Svandís. „Samningurinn var opinn og læknar gátu sagt sig inn á hann“, bendir hún á og það verði því ekki sama fyrirkomulag viðhaft í komandi samningum. Takmarkanir verða settar í formi árangurs- og gæðamælinga og með mati ríkisins á þörfinni fyrir þjónustu ólíkra sérfræðinga.  

Eitt af því sem verið er að skoða í samningum núna er að takmarka hve margar aðgerðir hver læknir getur gert utan ríkisspítala.

Í viðtalinu er einnig rætt um skýrslu Landlæknis um mjög alvarlegan vanda bráðamóttöku Landsspítalans; útskriftar- og mönnunarvanda spítalans og stöðu hjúkrunarheimila. Einnig lagabreytingar til að opna hjúkrunarheimilin til frambúðar fyrir fólki óháð aldri og möguleg áhrif þess á rými fyrir aldraða sem nú liggja á Landsspítalanum og geta ekki útskrifast fyrr en pláss fæst - en biðin er löng.  Í byrjun síðasta árs voru 362 á biðlista, 67 ára og eldri. Ef fjöldi á biðlista er reiknaður á fjölda íbúa 80 ára og eldri biðu um helmingi fleiri í ársbyrjun 2018 en viðmiðunarárið 2014. 

Meðal d­val­ar­tími sjúk­linga sem bíða inn­lagn­ar á deild­ir spít­al­ans hef­ur einnig lengst og var í fyrra rúmlega 23 klukkustundir sam­an­borið við um 16 og hálfa klukkustund  á sama tíma árið áður eða árið 2017. Æski­legt viðmið eru 6 klukkustundir, segir í skýrslu Landlæknis.

 

Nýjast