Ekki búið að greiða ólögmætar skerðingar á öryrkjum: ráðherra neitar að tjá sig um málið

Í 10 ár hefur íslenska ríkið brotið á lagalegum réttindum yfir 1000 öryrkja með því að skerða bætur þeirra. Í júní 2018 skilaði umboðsmaður Alþingis áliti þess efnis að þessi skerðing sé ólögmæt og greiða eigi öryrkjum þá skerðingu sem þeir hafa orðið fyrir í yfir 10 ár. Nú um ári seinna hafa öryrkjar ekki enn fengið neina endurgreiðslu á þessum ólögmætu skerðingum.

Samkvæmt gögnum sem Hringbraut hefur undir höndum sést hvar fjármálaráðuneytið og félagsmálaráðuneytið vita ekki hvernig eigi almennilega að bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis. Kemur fram í gögnunum að þrátt fyrir að álitið sé mjög skýrt hafi félagsmálaráðuneytið ákveðið að fá lögmannsstofuna Lex til að reyna semja um málið í stað þess að hefja greiðslur strax. Ekkert var því til fyrirstöðu að byrja að greiða öryrkjum strax eftir að álit umboðsmanns Alþingis leit dagsins ljós og er kerfi Tryggingastofnunar einmitt hannað til þess að geta gert það.

Í tölvupóstsamskiptum sést hvar Tryggingastofnun er ítrekað að biðja félagsmálaráðuneytið um leiðbeiningar um hvernig eigi að aðhafast í því að leiðrétta þessar greiðslur. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði ítrekað að ekkert væri því til fyrirstöðu að greiðslur gætu hafist strax en á sama tíma sagði Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra að enn væri verið að bíða eftir fjárheimildum til þess að byrja að greiða. Einnig sagði Ásmundur ítrekað í fjölmiðlum að ráðuneyti hans væri að bíða eftir upplýsingum frá Tryggingastofnun og að þess vegna hefði málið tafist. Í bréfi sem forstjóri Tryggingastofnunar sendi til Ásmundar undrast hann þessi ummæli ráðherrans og spyr hvað hann sé að meina. Engin gögn eru hins vegar til um svar Ásmundar til forstjóra Tryggingastofnunar. 

Í fréttaþættinum 21 á Hringbraut ræddi Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson við Þuríði Hörpu Sigurðardóttir, formann Öryrkjabandalagsins og Halldóru Mogensen, þingmann Pírata og formann velferðarnefndar Alþings, um þann seinagang sem hefur orðið á greiðslum til yfir þúsund öryrkja vegna ólögmætra skerðinga Tryggingastofnunar.