Gunnar Smári svarar fyrir sig: „Ég banda þessum föðurlegu leiðbeiningum frá mér“

Gunnar Smári Egilsson, formaður Sósíalistaflokksins, segir Einar Þorsteinsson, fréttamann hjá RÚV, vera algerlega óhæfan sem umræðustjóra hjá fjölmiðlinum. Hann svarar þá Ólafi Þ. Harðarsyni, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands í nýjum pistli á Facebook.

Ólafur lét orð um Gunnar Smára falla í umræðu sem hafði skapast um Kastljósþátt Einars þar sem Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, var gestur. Mörgum þótti einar ganga heltur hart fram gegn Ingu en þar voru áhyggjur hennar af viðbrögðum stjórnvalda við kórónaveirunni aðallega ræddar. Ólafur sagði: „Sé að vinur minn, Gunnar Smári, er stundum að rifja upp að fyrir áratugum var Einar var víst formaður ungra sjálfstæðismanna í lókal félagi. Fer í manninn en ekki boltann. Stimplun er víst orðið um þetta í félagsfræði. Mér er alveg sama um hvað Einar og Gunnar Smári sögðu og hugsuðu í gamla daga. Mér finnst skipta máli hvað þeir segja og gera hér og nú.“

Gunnar svaraði þessu á Facebook:

„Þetta er alrangt hjá Ólafi. Ég hef einmitt gagnrýnt Einar fyrir vonlausa fréttamennsku og í tengslum við það stundum bent á að hann er fyrrum stjórnarmaður í Tý, félagi ungra Sjálfstæðisflokksmanna í Kópavogi. Ég hef birt fjölmörg dæmi um að Einar er algjörlega óhæfu fréttamaður eða umræðustjóri á Ríkissjónvarpinu, ætti heima á útvarpi Valhöll. Margir aðrir fréttamenn og umræðustjórar eru fyrrum stjórnarfólk í Samtökum ungra Sjálfstæðisflokksmanna og undirfélögum þess. Ég get þess ekki nema þegar ég er að tala um áhrif Sjálfstæðisflokksins á mannaráðningar á RÚV, ekki til að draga úr getu þessa fólks til að sinna starfi sínu. Einar sker sig hins vegar úr fyrir einbeitta þjónkun við flokkinn hans, dónaskap hans gagnvart talsfólki smærri og nýrri flokka, almennan hroka og einstaklega heimskt sjónarhorn á öll mál; enduróm af blindri nýfrjálshyggjutrú.

Ég banda því þessum föðurlegu leiðbeiningum Ólafs Þ. frá mér. Og legg til að hann neiti að taka þátt í kosningasjónvarpi Ríkissjónvarpið þar til þar verður fjallað um samfélagsmál af meiri víðsýni og viti.“