Erum við búin að gleyma hvað gerðist síðast þegar bannað var að tala niður hluti?

Tíu ár liðin frá því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 kom út. Sif Sigmarsdóttir spyr sig að því tilefni hvort við séum búin að gleyma hvað gerðist síðast þegar bannað var að „tala niður“ hluti. Pistill hennar um málið birtist í Fréttablaðinu í dag:

 

„Umfjöllun um bresku konungsfjölskylduna hefur fyllt síður blaðanna í kjölfar þess að Harry Bretaprins og eiginkona hans Meghan Markle tilkynntu að þau hygðust segja sig frá opinberum embættisskyldum innan krúnunnar. Deilur fjölskyldunnar fóru fram fyrir opnum tjöldum í gegnum ásakanir í fjölmiðlum. „Nánir vinir“ Harry sögðu konungsfjölskylduna hafa komið illa fram við Harry og Meghan sem vildu nútímavæða krúnuna og sökuðu Vilhjálm prins um að reyna að bola þeim burtu úr fjölskyldunni. „Nánir vinir Vilhjálms“ sögðu Vilhjálm vonsvikinn yfir því að konungsfjölskyldan væri ekki lengur „samstiga lið“ en hann vonaði að bróðir hans sæi að sér og gerðist aftur „meðspilari“.

Vilhjálmur prins var ekki sá eini sem kallaði eftir aukinni liðsheild í vikunni. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skammaði lækna sem lýstu aðstæðum á bráðamóttöku Landspítalans sem „neyðarástandi“ og „skelfingarflækju“ og sagðist eiga erfitt með að „standa með“ Landspítalanum þegar út úr honum streymdu „ályktanir á færibandi“ um að stofnunin væri „nánast hættuleg“. Svandís sagðist vilja eiga fleiri „hauka í horni“ meðal lækna og hvatti þá jafnframt til að hætta að „tala niður spítalann“.

Misvanhæfir flokksgæðingar

Kunningi minn frá Íran sagði mér einu sinni sögu frá heimalandi sínu sem setið hefur í mér æ síðan. Sem nemandi í eðlisfræði við háskólann í Teheran á níunda áratugnum varð hann var við að framgangur stúdenta við útskrift hélst ekki í hendur við frammistöðu í námi heldur hversu mikla hollustu þeir sýndu stjórnvöldum. Fullir gremju fylgdust þeir sem ekki voru í klíkunni með embættismannakerfi borgarinnar fyllast af misvanhæfum flokksgæðingum. Afleiðingar ráðningarstefnunnar virtust kunningja mínum þó í fyrstu ekki tiltakanlegar. En svo var það einn daginn að ráðamenn og já-menn þeirra mættu í hverfið hans og vildu byggja tjörn. „Er það nokkuð mál?“ spurðu valdhafar. „Ekkert mál,“ svöruðu já-mennirnir, verkfræðingar borgarinnar sem komu að vörmu spori brunandi með fylgispektina og skurðgröfur að vopni og hófu að grafa holu.

Verkið sóttist þeim vel og þegar holan hafði náð nokkurri dýpt var dælt í hana vatni. Íbúar hverfisins sem fylgst höfðu efablandnir með framkvæmdunum vörpuðu öndinni léttar. Þeir höfðu eignast þessa fallegu tjörn. En svo fór að rigna. Sakleysislegur punt-pollurinn breyttist skyndilega í voveiflegt fljót sem streymdi hvítfyssandi um götur og stræti.

Ósk um þýlyndi

Í ár eru tíu ár liðin frá því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 kom út. Í skýrslunni var meðal annars fjallað um hve fáir þorðu að tjá sig gagnrýnið um það sem þá var talið íslenska bankaundrið. Í skýrslunni er sagt frá því þegar Vilhjálmi Bjarnasyni, sem þá starfaði sem lektor við viðskiptadeild Háskóla Íslands, barst hótun frá Kaupþingi um að styrkur bankans til deildarinnar yrði dreginn til baka ef Vilhjálmur yrði þar áfram við störf og léti ekki af gagnrýni sinni.

Við munum öll hvað gerðist síðast þegar bannað var að „tala niður“ hluti. Já-menn eru ekki aðeins gagnslausir heldur eru þeir beinlínis hættulegir. Ragnar Freyr Ingvarsson læknir svaraði kröfu heilbrigðisráðherra á þá leið að það væri brot á læknaeiðnum að segja ekki frá ástandinu á Landspítalanum og bráðamóttökunni.

Meðspilarar eru eflaust ágætir í hópíþróttum. Ósk frá yfirmanni um að menn gangi samstiga og séu haukar í horni – hvort sem um ræðir ráðherra yfir fjársveltum málaflokki eða prins yfir úreltri tímaskekkju – er ósk um þýlyndi, undirgefni og gagnrýnisleysi. Það er þannig sem við endum með nakinn keisara og tjörn sem flæðir yfir bakka sína.“