Helga vala segir æstan fjölmiðlamann hafa sagt að jóhannes væri vondur maður:

„Hversu lágt er hægt að leggjast þegar símtali milli hjóna er lekið á netið? Hvar halda þeir sem leka slíku samtali að þeir nái að vinna sér inn einhverja samúð? Ég hef ekki hlustað á þetta tiltekna símtal en leyfi mér að halda því fram hér blákalt að öll hjón hafa á einhverjum tímapunkti í sínu lífi sagt eitthvað sem ekki er til eftirbreytni.“

Þetta segir Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar. Hún gagnrýnir þann sem lak símtali Jóhannesar þar sem hann hellir sér yfir fyrrverandi konu sína með líflátshótunum. Jóhannes segir að hann hafi upplifað sig í lífshættu á þessu tímabili og tekist á við það með áfengisneyslu. Hann viðurkennir að hafa sagt hluti sem hann sjái eftir. Fyrrverandi eiginkona hans segir í samtali við Fréttablaðið að myndbandið sé ekki frá henni komið og þau hafi unnið í sínum málum frá því að þetta var og hún styðji hann í dag.

Helga Vala gagnrýnir þann sem lak myndskeiðinu:

„Að birta svona símtal milli hjóna, í óþökk konunnar, vegna einhvers PR stríðs er að mínu mati fullkomlega óforskammað.“

Þá hrósar Helga Vala Stundinni fyrir að birta upptökuna og upplýsa hvað sé að gerast á bakvið tjöldin. Þá segir Helga Vala:

„Vikuna sem Stundin og Kveikur komu fram með Samherjaskjölin var ég dregin í viðtal ásamt öðrum þingmanni.

 

Eftir viðtalið var dagskrárgerðarmaðurinn mjög æstur yfir því að fjölmiðlarnir væru ekki að greina frá hvað uppljóstrarinn væri nú vondur maður og dró allskonar mál fram, sem honum höfðu verið sögð af ákveðnum aðilum.

 

Það er nefnilega líka ágætt að við áttum okkur á þegar fólk svífst einskis, þá vitum við hversu lágt er hægt að leggjast og tökum ekki þátt í að dreifa.“