Svekkt og sár: Borguðu 3.560 kr. fyrir að fara á útsýnispallinn í Perlunni – 42 gr. smákaka á 675 krónur

Svekkt og sár: Borguðu 3.560 kr. fyrir að fara á útsýnispallinn í Perlunni – 42 gr. smákaka á 675 krónur

Blaðamaður Hringbrautar brá sér í Perluna eftir ábendingu um að okrað væri á gestum, hvort sem það væri Íslendingar eða erlendir ferðamenn. Ferðamenn sem blaðamaður ræddi við upplifði Perluna sem túristagildru eftir að hafa greitt 3,560 krónur fyrir að fara á útsýnispallinn. Þá hafði Hringbraut fengið ábendingu um að reynt væri að svína á ferðamönnum á staðnum.

Í Perlunni hitti blaðamaður fyrir mann að nafni Mark sem var þar ásamt eiginkonu sinni og foreldrum sínum. Fyrir þau fjögur kostaði 3,560 krónur að bregða sér út á pallinn. Urðu þau fyrir vonbrigðum og upplifðu sig blekkt bæði í Perlunni og á fleiri stöðum.

Reykjavíkurborg keypti Perluna fyrir 1.393 milljónir króna árið 2013. Voru vatnstankarnir ekki hluti af þeim kaupum. Árið 2018 voru þeir síðan keyptir á 396 milljónir og samtals borgaði Reykjavíkurborg 1.789 milljónir króna fyrir Perluna. Árið 2015 auglýsti Reykjavíkurborg Perluna til leigu og gerði Perla norðursins samning við Reykjavíkurborg. Eigendur þess eru Landsbréf, Salta ehf, Lappland ehf, og Perluvinir ehf. Meðal hluthafa í Perluvinum eru fyrrverandi þingmennirnir Sif Friðleifsdóttir og Álfheiður Ingadóttir, en félagið er hópur af um 60 einstaklingum sem frá árinu 2012 hefur hvatt til uppbyggingar á náttúrusýningu í Perlunni.

Perla norðursins hefur leigutekjur af því að leigja þeim sem eru með starfsemi í húsinu. Þar er að finna m.a. ferðamannaverslun Rammagerðarinnar og kaffihús Kaffitárs. 

Reykjavíkurborg fór í umtalsverðar framkvæmdir vegna leigusamningsins. Samkvæmt bréfi frá sem Óli Jón Hertervig, hjá eigna og atvinnuþróunarskrifstofu Reykjavíkurborgar skrifar í október 2018 er áætlað að heildarkostnaður vegna framkvæmda á Perlunni verði um 509 milljónir króna. Hefur því Reykjavíkurborg fjárfest í Perlunni fyrir rúma 2,3 milljarða króna.  

Þar til á síðasta ári hafði verið frítt að fara á útsýnispallinn. Í leigusamningi Perlunnar segir að á fyrsta starfsári verði aðgengi að útsýnispalli Perlunnar öllum gestum gjaldfrjáls, en talað er um í samningnum að það verði svo endurskoðað eftir eitt ár. Ef af því yrði að setja gjald yrði það hóflegt og var ákveðið að gjaldið yrði 490 krónur fyrir að fara á útsýnispallinn. En fyrr á þessu ári var gjaldið hækkað um 80 prósent á einu bretti, úr 490 krónum í 890 krónur. Eru margir ósáttir við að borga 890 krónur og finnst það langt frá því að vera hóflegt gjald. Samkvæmt EES samningnum er það óheimilt að mismuna fólki eftir þjóðerni. 

Blaðamaður Hringbrautar ákvað að fara í Perluna og sjá hvort hann yrði rukkaður um aðgangsgjald að útsýnispallinum. Ræddi hann við starfsfólk Perlunnar og spurði á ensku hvort það kostaði eitthvað að fara upp. Var honum tjáð að það kosti 890 krónur. Þegar blaðamaður spurði svo annan starfsmann á íslensku hvað það myndi kosta að fara á útsýnispallinn sagði hann að ef fyllt væri út umsókn á netinu og sótt um að vera meðlimur í vildarvinaklúbb Perlunnar þyrfti viðkomandi ekkert að greiða neitt.

Til þess að getað skráð sig í vildarvinaklúbb Perlunnar þarf að hafa íslenska kennitölu, svo eingöngu Íslendingar eiga möguleika á því að fá ókeypis þar inn. Eins og áður segir, hitti blaðamaður Mark og fjölskyldu sem hafði ákveðið að bjóða sínu fólki að sjá borgina af útsýnispallinum. Þegar blaðamaður benti Mark og fjölskyldu hans á að Íslendingar gætu fengið frítt með því að sækja um vildarvinakort, sagði Mark vonsvikinn að þetta væri ekki fyrsta túristagildran sem hann hafi lent í hér á landi. Hann hefði verið varaður sérstaklega við þeim af kunningjafólki sem hefði komið til Íslands árið 2017. Þá talaði hann einnig um hversu dýrt kaffihúsið væri á staðnum. Þá greindi hann blaðamanni frá því að hafa fallið í vatnsgildruna líkt og svo margir aðrir ferðamenn, að greiða dýrum dómum fyrir vatn í verslunum þegar kranavatnið væri með því besta í heimi.

Næst lá leiðin á Kaffi tár í Perlunni. Þótti ferðamönnum verðið þar himinhátt. Þar var svo dæmi sé tekið í boði glútenfrí súkkulaði sara. Hún kostar 675 krónur. Hún vegur 42 grömm og kílóverðið því um 16 þúsund krónur.

Hefði Mark og fjölskylda ákveðið að fá sér eina söru til að narta í á útsýnispallinum hefði upplifunin kostað samtals 6.260 krónur.

Nýjast