Sdg ráðleggur bretum að halda í þriðja orkupakkann

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrum forsætisráðherra skrifar grein í nýjasta hefti  breska blaðsins Spectator. Þar ráðleggur hann Bretum að semja um áframhaldandi aðild að innri markaði Evrópu í gegnum samninginn um Evrópska Efnahagssvæðið.

Eitt er að Brexitmenn í Bretlandi höfnuðu þessari hugmynd þegar í byrjun. Þeir líta svo á að aðild að innri markaðnum jafngildi fullri aðild. Bretar þurfi að innleiða evrópska löggjöf eftir sem áður. Og þeir segja fullum fetum að aðild að innri markaðnum skerði sjálfstæði Breta meir en full aðild því þeir þurfi að taka við löggjöfinni en hafi ekki möguleika á að hafa áhrif.

Annað er og það er satt best að segja miklu eftirtektarverðara: Með greininni er Sigmundur Davíð í raun og veru að ráðleggja Bretum að halda fast í þriðja orkupakkann að minnsta kosti næstu árin.

Hann hlýtur að hafa sérstaka ástæðu fyrir ráðleggingu af þessu tagi. Hver er hún?

Það mætti gjarnan bæta einum fundadegi við á Alþingi um mánaðamótin til þess að gefa Sigmundi Davíð eða einhverjum samþingsmanni hans kost á að skýra þessa mismunandi afstöðu eftir því hvort Miðflokksmenn horfa á heiminn frá London eða Reykjavík.