Elínborg er konan sem var handtekin: Sár og reið – „Ógeðslega sárt að vera hinsegin og vera tekin á þessum degi“

Elínborg er konan sem var handtekin: Sár og reið – „Ógeðslega sárt að vera hinsegin og vera tekin á þessum degi“

Elínborg Harpa Önundardóttir er konan sem var handtekin á Gleðigöngunni í miðborg Reykjavíkur í dag. Hún var sökuð um að mótmæla göngunni. Elínborg segir það vera af og frá. Hún er meðlimur í samtökunum No Borders Iceland og segir að engin mótmæli hafi verið fyrirhuguð og segir að lögreglan hafi farið offari. Hún er sár og reið eftir samskipti sín við lögreglu. Þetta kemur fram á Vísi.

Líkt og greint hefur verið frá í fjölmiðlum var Elínborg handtekin við skemmtistaðinn Prikið og sagði í frétt Vísis að hún hefði verið flutt af svæðinu eftir mótmæli og hafa neitað að segja til nafns. Í samtali við Stöð 2 segir Elínborg.

„Þetta kom þannig til að ég er á pride og er skreytt og er með bleikan klút og grímu. Ég var að hlaupa niður Skólavörðustíg því ég var að flýta mér að hitta vini mína. Ég hélt á litlu pappaspjaldi sem á stóð „queer liberation.“ Svona skilti eru líka mjög algeng í göngunni.“ Þá hafi hún hlaupið í fasið á fjórum lögreglumönnum. Þeir hafi sagt að hún væri á lokuðu svæði og yrði að fara og ætti að taka niður grímuna. Hún kveðst hafa reynt að útskýra sína hlið og væri á leiðinni að hitta vini sína. Þegar hún hafi síðan tekið niður grímuna hafi hún verið spurð um skilríki. Elínborg segir:

„Ég reyni líka að taka upp símann minn til þess að byrja að taka upp, af því ég vissi alveg hvað var að fara að gerast. Þeir sögðu mér síðan að stíga með sér til hliðar.“

Hún bætir við að hún hafi ætlað að reyna að hringja í stjórn Hinsegin daga.

„Þá er bara ráðist á mig, mér skellt í jörðina og ég tekin inn í bíl,“

Jóhann Karl Þórisson hjá lögreglunni í Reykjavík heldur fram að Elínborg hafi verið að mótmæla og neitað að fara eftir fyrirmælum lögreglu.

Elínborg segir einnig: 

„Það er ógeðslega sárt að vera hinsegin og vera tekin á þessum degi, bara fyrir hver þú ert, ekki fyrir eitthvað sem þú ert að gera.“

Ítarlegt viðtal er að finna við Elínborgu á vef Vísis. 

Nýjast