Ekkert ferðaveður um allt land eftir hádegi í dag - skafhríð, lélegt skyggni og samgöngutruflanir

Mikil vetrarfærð er um mest allt land og ekkert ferðaveður verður um allt landið eftir hádegi í dag ef veðurspá gengur eftir. Vegfarendur eru beðnir um að fylgjast vel með færð og veðri áður en lagt er í langferð en búist er við hríð á Vestfjörðum og Norðurlandi ásamt stormi víða um land seint í dag og á morgun samkvæmt veðurstofu Íslands og Vegagerðinni.

Appelsínugul viðvörun er í gildi vegna veðurs á Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði og Vestfjörðum en hún er þó í gildi á mismunandi tímum dags.

Á Suðurlandi verður norðaustan 20-28 m/s og hvassast undir Eyjafjöllum með vindhviðum yfir 40 m/s í vindstrengjum við fjöll. Þá verður skafhríð með lélegu skyggni og ekkert ferðaveður eftir klukkan þrjú í dag og til klukkan eitt í nótt. Hætta er á foktjóni og fólk beðið um að ganga frá lausamunum.

Eftir klukkan eitt og í tæpan sólarhring, fram til miðnættis á miðvikudag, tekur við gul viðvörun með skafhríð og lélegu skyggni. Þá má búast við samgöngutruflunum og hárri ölduhæð sums staðar við landið.

Eftir klukkan fjögur í dag og til rúmlega tvö í nótt verður einnig norðaustan 20-28 m/s á Snæfellsnesi, Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli. Þar gæti vindur farið yfir 40 m/s í vindstrengjum og mikil hætta á foktjóni. Skafhríð með lélegu skyggni og ekkert ferðaveður.