Safna fyrir stúlkuna á akureyri: „ég þekki sjálfur tekjutapið sem hlýst af slysum“

Ekið var á sjö ára gamla stúlku á Hörgárbraut á Akureyri um þrjú leitið á laugardaginn síðastliðinn.

Lokað var fyrir umferð um Hörgárbraut í um tvo klukkutíma, á meðan rannsókn lögreglunnar fór fram að því er segir á vefmiðlinum kaffið.is en ökumaðurinn var ekki grunaður um ölvunar- eða fíkniefnaakstur. íbúar í hverfinu hafa lengi barist fyrir því að fá undirgöng eða göngubrú yfir götuna en síðasta vetur var ekið á sex ára gamlan dreng á sama stað.

Fjölskyldan dvelur nú í Reykjavík

Stúlkan sem ekið var á heitir Vilborg Freyja og slasaðist hún alvarlega við bílslysið. Þurfti hún meðal annars að fara í aðgerð á læri og kjálka í kjölfarið. Fjölskyldan sem saman stendur af fimm manns mun því koma til með að dvelja í Reykjavík um óákveðin tíma með tilheyrandi vinnutapi og kostnaði. Ljóst er að Vilborg mun þurfa mikla aðhlynningu næstu vikur.

Vinir fjölskyldunnar ákváðu því að setja af stað söfnun fyrir þá sem vilja aðstoða fjölskylduna og brúa bilið þar til allt skýrist og lífið kemst aftur í samt horf.

„Ég þekki sjálfur tekjutapið sem hlýst af slysum og því sem því fylgir og barningnum við að fá útúr tryggingum ef það er réttur á því, en það getur tekið laaaaaangan tíma,“ segir Hannes Bjarni Hannesson meðal annars í færslu sinni á Facebook þar sem hann auglýsir söfnunina.

Þeir sem geta aðstoðað fjölskylduna er bent á reikningsnúmer: 0162-26-011689, og kennitölu: 1612862739