Egill hugleiðir hvers vegna sigurinn er sætari gegn dönum: „danahatur er varla mjög útbreitt lengur“

Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason veltir fyrir sér hver vegna landsmenn virðast hafa sérstakt yndi af því að sigra Dani í íþróttum í nýjum pistli á Eyjunni. „Það eru liðin 76 ár síðan við slitum endanlega sambandi við þá og 101 ár síðan við fengum fullveldið frá þeim. Danahatur er varla mjög útbreitt lengur.“

Egill segir Dani ekki þvælast mikið fyrir Íslendingum í sínu daglega lífi. „Nema helst í þeirri mynd að danska er enn þá kennd í íslenskum skólum.“ Hann segir dönskukennsluna vera vonlítið verkefni þar sem áhrif Dana fara minnkandi í íslensku samfélagi og börn hafa litla sem enga reynslu af dönsku.

„Ólíkt kynslóðunum sem ólust upp við Hjemmet, Familje Journal og Andrés Önd á dönsku. Fyrir okkur var ekkert mál að læra dönskuna – hún var út um allt í málumhverfi okkar. Nú er hún hvergi,“ segir Egill og bætir við að það liggi við að hann gleðjist þegar hann heyri dönskuslettu.

Danir aðalkeppinautar Íslands

 

Þrátt fyrir það bendir Egill á að eftir sigur Íslendinga á Dönum í handbolta í gær virðist fólk hvarvetna segja sigurinn gegn Dönum vera sætari en ella. „Danir eru náttúrlega gamalt handboltastórveldi.

Handboltinn barst hingað til lands frá Danmörku – fyrst til Hafnarfjarðar en breiddist svo út um landið. Það þótti löngum mikið mál að etja kappi við Dani í þessari íþrótt, en það var ekki fyrr en 7. apríl 1968 að Íslendingum tókst loks að vinna Dani í handbolta. Leikurinn fór 15-10, það var minna skorað í handboltanum þá.“

Sigurhátíð um land allt

 

Í kjölfar sigursins braust út hátíð um allt land að sögn Egils. „Meira að segja hinn háttprúði menntamálaráðherra, Gylfi Þ. Gíslason, hljóp inn á völlinn í Laugardalshöllinni. Það var dálítið eins og sjálfstæðið væri enn í húfi. Þetta var líklega sætasti íþróttasigur lýðveldisins fram að því – árið áður höfðu Danir sigrað Íslendinga 14-2 í fótbolta.“

Leikurinn fór fram í Laugardalshöll og var Egill sjálfur viðstaddur, aðeins átta ára snáði, þegar þessi sögufrægi leikur átti sér stað. „Ég man ekki sérstaklega mikið eftir leiknum sjálfum – en rámar þó í leikni Geirs Hallsteinssonar og þrumuskot Jóns Hjaltalíns Magnússonar.“

 \"\"