Egill birtir samtal forstjóra: „hvernig eigum við að bregðast við, það er allt vitlaust í fjölmiðlunum?“

For­ráða­menn Mountaineers of Iceland, fyrir­tækisins sem flutti fjöru­tíu manns á Lang­jökul og björgunar­sveitar­menn þurftu að bjarga í gær­kvöldi, vildu ekkert tjá sig um málið þegar Frétta­blaðið náði tali af þeim. Fyrir­tækið kvaðst ætla að standa fyrir rann­sókn innan­húss um hvað hefði farið úr­skeiðis. Þegar blaðamaður leitaði svara hjá fyrirtækinu, var blaðamanni sagt að „grjóthalda kjafti.“

Samherji er líka annað fyrirtæki sem talaði um að rannsaka sig sjálft. Egil Helgason fjallar um þessa tilhneigingu fyrirtækja hér á landi að í stað þess að fá utanaðkomandi óháða aðstoð til að rannsaka málin finnist forstjórum fyrirtækja eðlilegt að það sé í þeirra verkahring.

Egill Helgason segir:

„Við getum ímyndað okkur hvernig slík rannsókn fer fram þar sem forstjóri fyrirtækisins situr inni á skrifstofu sinni og á í samtali við sjálfan sig.

Gerum okkur í hugarlund að forstjóri 1 tali við forstjóra 2, þeir eru þó einn og sami maðurinn en til hægðarauka látum við annan þeirra hafa djúpa rödd en hinn er skrækari:

Forstjóri 1: Hvernig eigum við að bregðast við, það er allt vitlaust í fjölmiðlunum?

Forstjóri 2: Við verðum að rannsaka þetta.

Forstjóri 1: Hvernig þá? Hver á að rannsaka?

Forstjóri 2: Við.

Forstjóri 1: Þú meinar ég?

Forstjóri 2; Já, við hérna.

Forstjóri 1: Þetta er náttúrlega alvarlegt mál.

Forstjóri 2: Já, við lítum það alvarlegum augum eins og rannsóknin sýnir.

Forstjóri 1: Af hverju hleyptum við illa búnu fólki upp á fjöll þegar búið var að spá fárviðri?

Forstjóri 2: Öööööh…..

Forstjóri 1: Líka börnum.

Forstjóri 2: Eeeeeh….

Forstjóri 1: Hefðum við ekki átt að aflýsa ferðinni?

Forstjóri 2: Uuuuuh….

Forstjóri 1:  Og fólkið, það var í lífshættu, suma kól meira að segja?

Forstjóri 2: Já, þú segir….

Forstjóri 1: Og björgunarsveitirnar þurftu að koma og bjarga öllu fólkinu? Mörg hundruð björgunarsveitarmenn.

Forstjóri 2: Ja, við verðum náttúrlega að fara yfir verkferla.

Forstjóri 1: Ætlum við að gera þetta aftur?

Forstjóri 2: Ég veit það ekki, þetta lítur náttúrlega ekki vel út.

Forstjóri 1: Við verðum allavega að passa okkur aðeins.

Forstjóri 2: Að minnsta kosti næstu mánuðina.

Forstjóri 1: Það er kannski best að viðurkenna smá mistök?

Forstjóri 2: Mannleg mistök?

Forstjóri 1: Fjarskalega mannleg:

Forstjóri 2: Klárlega mistök.

Forstjóri 1: Ekkert svona skeytingarleysi?

Forstjóri 2: Nei, nei, biddu fyrir þér.

Forstjóri 1: Ábyrgðarleysi eða glannaskapur?

Forstjóri 2: Nei, nei, ekki við. Við tökum auðvitað fulla ábyrgð?

Forstjóri 1: Hvernig er hún?

Forstjóri 2: Við segjum bara að við tökum ábyrgð.

Forstjóri 1: Ókei, er þá komin niðurstaða?

Forstjóri 2. Allir sáttir?

Forstjóri 1: Já, er það ekki?

Forstjóri 2: Olræt. Best að fara að drífa sig. Látum ekki túristana bíða.

Forstjóri 1: Úff, þetta er nú ekki góð spá….