Drápsvespur: „vespurnar éta næstum hvað sem er“

Evrópskar hunangsbýflugur eru undir árás frá asískum risavespum. En býflugurnar hafa fengið liðsauka fræðimanna sem fyrirhuga bæði efnahernað og loftárásir gegn kvikindunum.

Í Asíu hafa smávaxnar hunangsbýflugur lært að umkringja vespurnar svo þétt að líkamsvarmi býflugnanna drepur óvininn. En evrópskar hunangsbýflugur hafa ekki ennþá lært þessa list.

Árlega verða vespur um 10 manns að bana í Frakklandi.

Fimm drápsvespur geta drepið um 1000 hunangsbýflugur á degi hverjum

Drápsvespurnar drepa býflugurnar með því að bíta höfuðið af þeim fyrst en, síðan er flugan hlutuð öll í sundur. Býflugurnar verða ráðþrota og veita engar varnir.

Skæð innrás

Fyrir réttum áratug hélt óvinurinn í fyrsta sinn inn yfir landamæri Frakklands. Að líkindum var hann aðeins ein stök vespudrottning sem kom með gámaskipi frá Kína. En þegar árið 2005 var ljóst að skæð innrás var hafin. Þessi eina drottning hafði fjölgað sér í fjölmargar nýlendur sem höfðu sest að á svæðinu í kringum Bordeaux.

\"\"

Venjulegar evrópskar hunangsbýflugur urðu skjótt fórnarlömb innrásarhersins því asíska vespan er skilvirkur drápari sem getur kerfisbundið gjöreytt stórum býflugnabúum. Taktík vespanna felst í að svífa fyrir framan inngang býflugnabúsins meðan þær sæta lagi. Þegar býflugurnar fara of nærri bíta vespurnar einfaldlega höfuð þeirra af og hluta skrokkinn síðan í sundur. Árásarliðið flýgur síðan til baka í bú sitt með próteinríkt herfangið handa lirfum sínum.  Þegar búið er að eyða öllum býflugum fara vespurnar inn í búin og hreinsa út hunang og býflugnalirfur sem lirfur vespanna fá að gæða sér á.

Asískar drápsvespur eru of stórar til þess að hunangsbýflugur geti sigrað þær í bardaga. Í Asíu hafa býflugur þó lært að umkringja stakar vespur og pakka þeim inn í hnött af iðandi býflugum. Þegar allt að 500 býflugur hreyfa flugvöðva samtímis, skapar viðnámið svo mikinn hita að vespurnar deyja. Sést hefur til einstakra evrópskra býflugna sem reyna sambærilega aðferð, en hún er ekki orðin þeim eiginleg.

Öll Evrópa í hættu

Frá innrásinni hefur drápsvespan dreifst um meginhluta Frakklands og eins hefur hún fundist á Spáni, í Portúgal, á Ítalíu og í Berlín. Asíska vespan spjarar sig þannig ágætlega í Evrópu og vísindamenn telja að þessi tegund geti dafnað í mestum hluta hennar, þ.á.m. gjörvallri Ítalíu, drjúgum hluta Balkanlandanna, á Englandi, í Þýskalandi og jafnvel í Skandinavíu.

\"\"

Þetta er ekki aðeins váleg tíðindi fyrir býflugur, heldur einnig manneskjur. Fyrir utan það að sjá um gríðarlega mikla hunangsframleiðslu eru býflugur nauðsynlegar fyrir frjóvgun ýmissa nytjajurta og ávaxta. Án býflugna er hætt við að framleiðslan minnki verulega og þá gæti m.a. verðlag hækkað.

Sérfræðingar leita eftir veikleikum

Sem betur fer njóta býflugur og bændur liðsinnis vísindanna. Franskir sérfræðingar hafa um áraraðir rannsakað vespurnar og eru í þann mund að hefja gagnárás. Átakið til að ráðast gegn þessum óvini hófst árið 2007 þegar vísindamönnum var skipt upp í þrjár herdeildir:

Náttúrusögusafnið í París rannsakaði líffræði vespanna og bú þeirra, rannsóknarstofnunin IMRA rannsakaði erfðamengi vespunnar og Þjóðarstofnun vísindarannsókna í Frakklandi tók að sér að rannsaka viðkomu vespanna og jafnframt að þróa skilvirkar gildrur.

Til þess að læra að þekkja óvininn hélt vísindamaðurinn Franck Muller og félagi hans Quintin Rome hálfsmánaðarlega á vettvang og fönguðu 2000 vespur  sem voru fluttar til rannsóknarstofu ásamt nokkrum fjölda vespubúa.

„Þegar við berjumst gegn einni tegund verðum við að þekkja líffræði og atferli hennar. Við þurfum að vita hverju hún laðast að og eins hverjir veikleikar hennar geti verið,“

útskýrir Franck Muller.

Vísindamennirnir komust að því að vespan drepur og étur nánast allt sem hún getur auðveldlega ráðið við. Þar á meðal eru hunangsbýflugur, en einnig aðrar vesputegundir og skordýr. Drápsvespan leitar einkum til býflugna þar sem ilmur þeirra laðar þær að. Svo virðist sem vespurnar stýrist að miklu leyti af ilmi og ferómónum og sú vitneskja átti síðar eftir að koma að góðum notum.

Með því að taka röntgenmyndir af vespubúunum og aðskilja drottningar frá vinnuvespum út frá þyngd þeirra gátu vísindamennirnir staðfest að stórt vespubú getur framleitt allt að þúsund nýjar drottningar á ári hverju. Allar drottningarnar geta síðan stofnað nýjar nýlendur ári seinna.

Röntgenmyndirnar voru ennfremur notaðar til að bera saman búin. Myndirnar sýndu að form, stærð og arkitektúr búanna var ótrúlega fjölbreytilegur, allt eftir því hvar búin fundust. Niðurstaðan sýndi þannig hversu ótrúlega aðlögunarhæfar vespurnar eru.

Algjör sigur er ógjörningur

Í upphafi var yfirlýst markmið sérfræðinga að ráða niðurlögum óvinarins að fullu. En rannsóknir sýndu að algjör sigur er því sem næst ómögulegur. Vespurnar eru alltof aðlögunarhæfar og viðkoma þeirra of hröð. Þess í stað varð stefnt að því að koma til varnar býflugum þannig að þeim lærist með tíma að verjast þessum vágesti. Þannig var einkum unnið að því að hefta útbreiðslu vespubúa.

\"\"

Ein aðferðin felst í að læra að þekkja efnafræðileg boðskipti vespanna. Við Þjóðarstofnun vísindarannsókna, CNRS, hefur Eric Darrouzet um fimm ára skeið rannsakað boðskiptaefni skordýranna, þ.e.a.s. samsetningu sameinda á yfirborði þeirra. Þökk sé þessum rannsóknum geta vísindamenn tekið sýni til að greina hvort árásarvespur komi úr sömu nýlendu eður ei. Býræktendur og meindýraeyðar geta þannig vitað hvort þeim beri að leita eftir einu eða fleirum vespubúum. Rannsóknir Eric Darrouzets hafa auk þess staðfest að allar drápsvespurnar í Frakklandi eru upprunnar frá sömu drottningu.

Á sama tíma hafa vísindin smám saman öðlast sýn yfir framrás drápsvespanna. Með merkingum hafa vísindamenn fylgt þeim eftir þegar þær sækja inn á ný svæði.

Vespum haldið í fjarlægð

Nokkuð jafn einfalt og smáriðið net hefur reynst vel í baráttunni. Vespusérfræðingar hafa þróað kassa með fínmöskva neti sem vespurnar komast ekki í gegnum. Neti þessu er komið fyrir við inngang býflugnabúa þannig að vespurnar nái ekki að ráðast á hungangsbýflugur, sem fyrir vikið geta flogið óhræddar inn og út. Vissulega stendur býflugunum ennþá ógn af vespunum þegar þær yfirgefa bú sitt, en verða ekki lengur sem lamaðar af hræðslu um leið og þær stinga hausnum út fyrir gættina og hafa því miklu betri líkur á að lifa af slík návígi. 

Viðlíka netkassa er þegar að finna víðsvegar í suðvesturhluta Frakklands. En ekki er víst að aðferð þessi virki annars staðar en í Evrópu þar sem atferli bæði býflugna og vespa ræðst af loftslagi. Þess vegna vinnur Franck Muller að því að kvikmynda viðbrögð og háttalag býflugnanna.

Eins hefur nokkuð árangur unnist við að eyðileggja bú vespanna. Áður höfðu býflugnaræktendur kostað miklu fé í skordýraeitur og mismunandi aðgerðir til að ná til búanna og eitra þau. En á síðustu árum hefur reynst afar vel að sprauta gastegundinni SO2 inn í búin í gegnum langt rör. SO2 getur þó verið skaðlegt mönnum þannig að aðferð þessi hefur ekki öðlast varanlega viðurkenningu.

Sérfræðingar skapa kynusla

Gildrur eru hins vegar óskaðlegar mönnum og á því sviði hefur Denis Thiéry við rannsóknarstofnunina INRA þróað nýjar gerðir. Hann hefur m.a. gert tilraunir við að laða vespur í gildrur með ferskum fiski, kjöti og ávaxtasafa en sá matseðill hefur því miður einnig lokkað til sín önnur skordýr.

„Vespurnar éta næstum hvað sem er. Og það er erfitt að útrýma þeim. En aðalmarkmiðið er að halda þeim í skefjum þar til býflugurnar hafa lært að verjast sjálfar,“

undirstrikar Thiéry. Mökunaratferli vespanna er einnig skoðað gaumgæfilega. Með því að valda truflunum á því má takmarka viðkomu stofnsins. Fræðimenn rannsaka nú samspilið milli drottningar og karldýra sem stýrist líklega að miklu leyti af kynferómónum drottningarinnar. Takist að einangra ferómóna geta sérfræðingarnir sem dæmi komið þeim fyrir á öðrum stöðum í umhverfinu. Þannig yrðu karldýrin ringluð og yfirgefa búið í tíma og ótíma sem kæmi niður á getu drottninganna til að fjölga sér.

Drónar sendir í bardaga

En kannski verður skilvirkasta aðferðin að heyja stríð úr lofti. Fjarstýrði dróninn Jókerinn er þróaður af Alexandre Chabrit og félögum hans í samtökunum WADUDU. Alexandre Chabrit er sjálfur býflugnabóndi og vildi finna leið til að eyðileggja bú vespanna.

\"\"

Lausnin fólst í Jókernum sem er búinn litlum þrýstikút með eitrinu permetren. Dróninn, sem flýgur með hjálp sex hreyfla, getur náð til búa sem áður voru utan seilingar meðan stjórnandinn stendur í öruggri fjarlægð frá æstum vespunum. Eitrinu er sprautað með löngu spjóti inn í búið og vespurnar deyja samstundis.

Eftir nokkra daga snúa Alexandre Chabrit og félagar hans til baka og taka þá með sér dauð búin.

Dróninn var prófaður gaumgæfilega á síðustu tveim árum og vænst er að fjöldaframleiðsla geti hafist nú í ár. Hann segir:

„Við viljum gjarnan nota umhverfisvænni eitur í stað þess að dreifa skordýraeitri í náttúrunni, en permetrin er ennþá það skilvirkasta. Þetta er samt ennþá í mótun og við hyggjumst betrumbæta aðferðina. Nú þegar getum við þó eyðilagt bú sem við náðum ekki til áður.“

Og það eru ekki einungis sérfræðingar og býflugnabændur sem taka þátt í stríðinu gegn vespum. Alexandre Chabrit hefur einnig þróað app þar sem allir geta tekið myndir af búum sem þeir sjá og sent upplýsingar um staðsetningu þeirra til miðlægrar stöðvar. Síðan geta meindýraeyðar nýtt sér upplýsingarnar og haldið af stað með eitur, gildrur og dróna.

Birtist fyrst í Lifandi vísindi, sjá nýja heimasíðu hér.