Dómsmálaráðuneytið vísar kæru Vigdísar frá – Segir Dag sitja uppi með illa fengin völd

Dómsmálaráðuneytið vísar kæru Vigdísar frá – Segir Dag sitja uppi með illa fengin völd

Dómsmálaráðuneytið hefur staðfest úrskurð kjörnefndar um að vísa kæru Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, frá. Vigdís hafði í kærunni krafist ógildingar borgarstjórnarkosninganna sem fóru fram í fyrra á þeim forsendum að Reykjavíkurborg hefði notast við persónuupplýsingar á ólöglegan hátt í aðdraganda kosninganna.

Fréttablaðið skýrir frá og hefur úrskurð ráðuneytisins undir höndum.

Í febrúar komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að borgin, Þjóðskrá og tveir rannsakendur við Háskóla Íslands hafi ekki farið eftir ákvæðum persónuverndarlaga sem voru í gildi í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna. Brotin fólust í því að smáskilaboð voru send á innflytjendur, konur yfir áttræðu og ungt fólk þar sem þau voru hvött til þess að mæta á kjörstað.

Vigdís kærði kosningarnar tæpu ári eftir að úrslit kosninganna urðu ljós en kærufrestur frá því að úrslit eru kynnt er aðeins ein vika. Því var málinu, sem hún kærði upphaflega til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, vísað frá af kjörnefnd sem sýslumaður skipaði.

Vigdís áfrýjaði niðurstöðu kjörnefndarinnar til dómsmálaráðuneytisins, sem hefur nú staðfest úrskurð nefndarinnar. Hún telur niðurstöðuna gríðarlegt áfall fyrir lýðræðið í landinu. Málinu sé þó ekki lokið hvað hana varðar.

„Málinu er ekki lokið þó ég sé búin að tæma allar kæruleiðir innanlands. Þessu var vísað frá vegna þessa sjö daga ákvæðis en eftir stendur lögbrotið. Málið er í pattstöðu,“ segir Vigdís í samtali við Fréttablaðið.

„Það er hægt að kæra málið til héraðsdóms en ég get ekki á þessari stundu tjáð mig um hvort ég fari með málið lengra, það eru mjög mörg brýn spillingarmál í borginni sem bíða úrlausnar,“ bætir hún við.

Vigdísi þykir að nýr kærufrestur hafi átt að hefjast daginn sem Persónuvernd birti úrskurð sinn um kosningarnar. Hún hafi þannig skilað öllum gögnum og kæru innan sjö daga frá úrskurðinum. „Til hvers eru eftirlitsstofnanir ef ekkert er hægt að gera þegar upplýst er um lögbrot? Það er augljóst að þessi staðreynd kallar á lagabreytingar,“ segir hún og furðar sig á því að dómsmálaráðuneytið taki ekki málið fyrir.

Dagur með illa fengin völd

Vigdís segir ekki útilokað að kosningarnar hefðu farið á annan veg. „Það munaði afar fáum atkvæðum að Sjálfstæðismenn næðu inn manni á kostnað Samfylkingarinnar. Það munaði minna en 500 atkvæðum að Miðflokkurinn næði inn öðrum manni. Þáverandi meirihluti féll í síðustu kosningum, annað skiptið í röð, en þeir hafa alltaf fundið nýtt varahjól.“

Hún segir ábyrgðina alfarið á höndum Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og meirihluta hans. „Það var Dagur B. Eggertsson sem flutti þessa tillögu inni í borgarráði að fara í þessar aðgerðir sem Persónuvernd komst að því að væru ólöglegar. Það má alveg segja að hann sitji núna uppi með illa fengin völd,“ segir Vigdís.

„Það var Reykjavíkurborg sem stjórnvald, undir stjórn Dags B. Eggertssonar, sem ákvað að snerta við hópum sem, samkvæmt skoðanakönnunum, voru líklegastir til að kjósa Samfylkinguna. Fólk af erlendu bergi brotið, ungmenni og konur yfir áttrætt,“ segir hún að lokum.

Nýjast