Davíð Oddsson minnist Birgis: Hann var gleðimaður á stundum sem til slíks eru ætlaðar og sat löngum við píanóið í Höfða

Davíð Oddsson minnist Birgis: Hann var gleðimaður á stundum sem til slíks eru ætlaðar og sat löngum við píanóið í Höfða

Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra, minnist Birgis Ísleifs Gunnarssonar í Morgunblaðinu í dag. Birgir kom víða við í íslenskri pólitík. Hann var borgarstjóri Reykjavíkurborgar frá 1972 til 1978 og alþingismaður á frá 1979 til 1991 fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þá starfaði hann sem seðlabankastjóri Íslands frá 1991 til 2005. Birgir lést þann 28. október síðastliðinn á líknadeild Landspítalans.

Davíð segir að enginn kæmist upp með fleipur eða yfirgang gagnvart Birgi.

„Hann var mjög prúður maður almennt og í stjórnmálaskiptum þótt enginn kæmi þar að tómum kofa eða kæmist upp með fleipur eða yfirgang gagnvart honum eða þeim málstað sem hann bar alla tíð fyrir brjósti. Hann var vinnusamur og iðinn, skipulagður og snar til verka ef þurfti. Hann leitaði frekar sátta en að láta aflið eitt ráða og var seinþreyttur til vandræða. Hann var viðkunnanlegur, þótt hann hleypti ekki alltaf mörgum nærri sér. Hann var gleðimaður á stundum sem til slíks eru ætlaðar og sat löngum við píanóið í Höfða eftir að borðhaldi lauk. Lét hann lagleysi félaga sinna yfir sig ganga af einstæðu umburðarlyndi en notaði svo sem síðasta hálftímann í hvert sinn til að falla í trans djassins og hreinsaði þá væntanlega út linnulaust garg kvöldsins úr eyrum sér.“

Davíð minnist þess einnig á versta áfall á ferli Birgis sem stjórnmálamanns, en það var þegar Sjálfstæðisflokkurinn missti meirihlutann í Reykjavíkurborg árið 1978.

„En hann lenti í pólitískum andbyr eins og flestir reyna sem ná langt í íslenskum stjórnmálum. Hans versta áfall var auðvitað það er „borgin féll“ í kosningunum 1978, eins og það heitir á máli okkar sjálfstæðismanna. Og má segja að þar hafi pólitísk óheppni komið við sögu þessa annars lánsama stjórnmálamanns. Því að Sjálfstæðisflokkurinn fékk hlutfallslega betra fylgi en hann hafði fengið 1970, en nú varð skipting atkvæða á flokka honum óhagfelld. Kosninganóttin var löng og erfið. En þegar öll atkvæði höfðu verið talin nema þau sem greidd voru utan kjörfundar virtist Sjálfstæðisflokkurinn ætla að halda meirihluta sínum af þokkalegu öryggi. Því töldu flestir flokksmenn að þeir hefðu komist fyrir vind því að reynslan hafði verið sú að Sjálfstæðisflokkurinn færi betur frá atkvæðum sem greidd voru utan kjörfundar en andstæðingarnir. Það varð ekki í þetta sinn. Í blöðum birtust svo myndir af borgarstjóranum þegar honum urðu úrslitin ljós og verður hún mörgum ógleymanleg. Ástandið í stjórnmálum á þessum tíma, sem lýst var í síðasta Reykjavíkurbréfi, varð til þess að flokksfólk felldi ekki sök á Birgi. En honum leið ekki vel.“

Nýjast