Dagur minnist guðrúnar: „ég votta gísla og öllum aðstandendum mína dýpstu samúð“

Það er ótrúlega sárt að kveðja Guðrúnu Ögmundsdóttur sem lést í gærmorgun eftir erfið veikindi. Hún tókst á við veikindin einsog aðra baráttu með lífsgleði, sjarma, jákvæðni og smitandi bjartsýni auk þess sem húmorinn var aldrei langt undan. Og baráttukona var Gunna alltaf.

Þetta segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um Guðrúnu Ögmundsdóttur, fyrr­ver­andi þing­mann Samfylkingarinnar. Banamein Guðrúnar var krabbamein. Guðrún var fædd í Reykja­vík 19. októ­ber 1950.

Eftirlifandi eiginmaður Guðrúnar, Gísli Arnór Víkingsson greindi frá andláti Guðrúnar á samfélagsmiðlum fyrr í dag. Guðrún og Gísli eignuðust tvö börn.

Guðrún var um árabil einn vinsælasti þingmaður þjóðarinnar en hún sat á þingi fyrir Sam­fylk­ing­una frá árinu 1999 til árs­ins 2007.

Dagur B. Eggertsson heiðrar minningu Guðrúnar á Facebook. Hann segir Guðrúnu hafa rutt brautina á ótalmörgum sviðum og skilið eftir sig djúp spor í samfélaginu og hjörtum fjölmargra. Dagur heldur áfram:

„Hvar sem einstaklingar eða hópar sem áttu undir högg að sækja þurftu stuðning eða rödd var Gunna mætt með eldmóð og óbilandi baráttuhug í bland við klókindi og málafylgju. Eftir allan sinn magnaða feril var gríðarlegur fengur að fá hana aftur inn í borgarstjórnarflokk Samfylkingarinnar vorið 2018 og að sama skapi er það mikill missir að sjá á eftir henni, ekki aðeins sem stjórnmálakonu heldur ekki síður þeirri mögnuðu og sönnu manneskju sem hún var,“ segir Dagur.  

„Það urðu allir ríkari af því að kynnast Gunnu Ö. Engum hef ég kynnst sem hafði jafn mikið og djúpt innsæi í samskipti fólks og hópa. Gunna var örlát á ráð og reynslu og varð hvarvetna \"límið\" í þeim félagsskap sem hún gekk til liðs við - og oftar en ekki sjálfskipaður veislustjóri - því enginn var meiri stemmningsmanneskja eða skemmtilegri á góðri stund,“ segir Dagur og bætir við að lokum:

„Mér þykir ótrúlega vænt um myndina sem ég læt fygja frá síðustu gleðigöngu en hún var jafnframt síðasta opinbera þátttaka Gunnu sem borgarfulltrúi áður en hún fór í veikindaleyfi. Ég votta Gísla og öllum aðstandendum mína dýpstu samúð. Blessuð sé minning Guðrúnar Ögmundsdóttur.“

\"\"