Veislubók Berglindar er algjör klassiker: Afrakstur áralangrar ástríðu um hvernig góða veislu skal gjöra

Matarást Sjafnar

Veislubók Berglindar er algjör klassiker: Afrakstur áralangrar ástríðu um hvernig góða veislu skal gjöra

Veislubókin er bókarbarn númer tvö hjá Berglindi.
Veislubókin er bókarbarn númer tvö hjá Berglindi.

Einn af okkar ástsælustu köku- og matarbloggurum, Berglind Hreiðarsdóttir fagurkeri með meiru gaf út bók á dögunum sem fjallar um allt sem tengist veisluhaldi, þar sem hugsað er út í hvert einasta smáatriði.  Bókin ber nafn með rentu, Veislubókin, og er ómissandi inn hvert heimili þar sem veislur skulu vera haldnar í hinum ýmsu stærðum og myndum.

Berglind er þekkt fyrir sínar stórfenglegu og glæsilegu kökur og ekki síst fyrir flottar veislur við hin ýmsu tilefni.  Berglindi er margt til lista lagt og hún er einstaklega fær í því að halda veislur sem tekið er eftir, hvort sem það eru ljúffengar kræsingar sem bornar eru á borð eða umgjörðin sem setur ávallt punktin yfir i-ð þegar Berglind á hlut að máli.  Bókin fjallar allt sem tengist veislu­haldi og góðum ráðleggingum.  Berglind fer meðal annars yfir hvernig hægt er að halda kostnaðinum í lágmarki og vanda til verka án þess að fara fram úr sér.  Landsmenn hafa fengið að njóta kunnáttu hennar í gegnum bloggsíðu hennar www.gotteri.is og er Veislubókin kærkomin viðbót í flóruna. 

Sjöfn Þórðar spjallaði við Berglindi um nýjustu afurð hennar, Veislubókina og fékk Berglindi til að ljóstra upp nokkrum leyndarmálum í tengslum við veisluhöld hennar í gegnum tíðina.

Segðu okkur aðeins frá tilurð bókarinnar?

„Ég hef í mörg ár gengið með bók í maganum en einhvern vegin alltaf haft í nægu að snúast og ekki látið verða af því að taka þær hugmyndir lengra. Eftir samtal og tengingu við Eddu útgáfu í vor fyrir tilstilli Þóru, ritstjóra bókarinnar tók ég þetta loks skrefinu lengra og skrifaði undir minn fyrsta útgáfusamning.“

Getur þú sagt okkur í grófum dráttum hvernig bókin er uppbyggð?

„Bókinni er skipt niður í sex mismunandi veislukafla með mismunandi þema, gátlistum og uppskriftum. Veislukaflarnir sem um ræðir eru; brúðkaup, útskrift, ferming, skírn/nafngjafarathöfn, barnaafmæli og fullorðinsafmæli. Í hverjum kafla eru gátlistar til að aðstoða fólk við að skipuleggja mismunandi veislur, tillögur að framsetningu, skreytingum og fullt af girnilegum uppskriftum. Brúðkaupskaflinn er líklega sá viðamesti, enda í mörg horn að líta þegar kemur að slíkum undirbúningi.“

Hefur þú ávallt verið dugleg að halda veislur og hugsa út hvert smá atriði?

„Já, það má segja það. Mér finnst endalaust gaman að halda matarboð, veislur og undirbúa slíkt. Ég hef þróað með mér ákveðið veisluhaldaraþol í gegnum tíðina held ég (ef að það er annars orð) og fæ sjaldan leið á partýstandi. Auðvitað er samt stundum heilmikið álag að standa í veislustússi og um að gera að fá aðstoð eftir fremsta megni, sem ég er reyndar alveg glötuð í. Síðan ætla ég alveg að viðurkenna að mér finnst skemmtilegra að undirbúa og framkvæma allt fyrir veisluna frekar en fráganginn sem fylgir,“ segir Berglind og hlær.

Þegar góða veislu skal gjöra, hvað er það sem skiptir helst máli þegar kemur að undirbúningi?

„Að vera búin að hugsa veisluna frá upphafi til enda og sjá fyrir sér verkið. Það er gott að skrifa allt niður í vinnuskjal/Trello/annað, safna saman í sarpinn hugmyndum og myndum af netinu í það vinnuskjal og nú auðvitað upplýsingum úr Veislubókinni og síðan raða öllu niður í tímaröð. Reyna jafnframt að gera eins mikið og hægt er fyrirfram og ekki bíða með allt þar til á síðustu stundu. Einnig þarf að passa upp á kostnaðinn og vera búinn að setja sér viðmið til að kostnaðurinn fari ekki úr böndunum.“

Manstu eftir neyðarlegu augnabliki sem þú hefur upplifað sem tengist veisluhaldi, hvort sem það var í þinni eigin veislu eða annars staðar sem þú ert til í að ljóstra upp?

„Jeminn, ó, já. Þegar við bjuggum í Seattle var ég í fyrsta sinn að elda heilan kalkún í ofni, hafði alltaf verið í mat hjá mömmu og pabba í kalkún fram að því. Ég vandaði mig svaka mikið og í mat voru komnir um tíu gestir fyrir utan okkur fjölskylduna og þar á meðal foreldrar vina okkar sem ég þekkti ekkert. Þegar allt var klárt og ég var að taka kalkúninn úr ofninum hélt ég í alvörunni ég væri að fara að taka Griswold fjölskylduna á þetta því það var ekkert djúsí að stinga í heldur bara skin og bein og ég svitnaði alveg inn í eldhúsi, með fulla borðstofu af gestum. En sem betur fer áttaði ég mig á því að ég hafði snúið honum vitlaust í steikarpottinum allan tímann og það sem ég hélt að væru bringurnar var það svo sannarlega ekki. Ég sneri honum því við í hvelli og útkoman varð þessar æðislegu safaríku og gómsætu kalkúnabringur sem höfðu legið í soðinu í dágóðan tíma í ofninum. Hef nú síðan heyrt eftir þetta að sumir eldi kalkún á hvolfi allan tímann nema rétt í lokin er honum snúið við til þess að fá gyllingu á hann því þannig verði hann safaríkri. Ég held hins vegar að ég sé svo brennd eftir þetta atvik að ég hef aldrei þorað að prófa það,“ segir Berglind og skellir upp úr.

Hvort ertu hrifnari að matar- eða kökuveislum?

„Hér verð ég að segja pass, bæði betra.“

Þegar kemur að kræsingum, veislum og öllu því sem tengist veisluhaldi áttu þér nokkuð „bucket lista“ yfir hvað þig langar að upplifa í veislu og hvert þig langar að fara í hátíðarveislu eða hvaðeina sem tengist því sem þú ert að gera?

„Úff, þetta er of flókin spurning.  Nei, ég á engan bucket lista og er merkilega nægjusöm þegar kemur að því að mér sé boðið í veislu, set allar kröfurnar á hina hliðina, þegar ég býð í veislu. Mér finnast allar veislur hafa sinn sjarma og skemmtilegast er að hitta og spjalla við fólk.  Auðvitað er gaman þegar veitingarnar eru góðar og mikið í þær lagt en mér finnst samt líka æðislegt að koma í veislur þar sem verið að grilla pylsur og bjóða upp á skúffuköku.“ 

Eins og Berglind nefndir halda allir veislur í einhvern tímann gegnum tíðina, hvort sem þeim finnst það gaman, séu góðir í því eða hvað. „Þegar ég samdi Veislubókina var ég með það í huga, reyndi að gera uppskriftir sem allir gætu ráðið við og góðar leiðbeiningar við þær sem flóknari eru. Í bókinni eru fjölmargar hugmyndir af alls kyns veislum og skreytingum sem fólk getur nýtt sér og er ósk mín sú að bókin létti lesendum lífið í veisluhaldi og gefi góðar hugmyndir.“

Nýjast