Inga Sæland hefur fengið nóg: „Spillingarmælirinn er fullur - Orðspor okkar á alþjóða vettvangi er í húfi“

Inga Sæland hefur fengið nóg: „Spillingarmælirinn er fullur - Orðspor okkar á alþjóða vettvangi er í húfi“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins segir ásakanir á hendur sjávarútvegsfyrirtækinu Samherja vekja sorg og reiði.

„Fyrirtækið virðist hafa beitt mútum til að komast yfir veiðiheimildir fátækra þróunarríkja með veika innviði. Í samvinnu við spillta heimamenn er Samherjasamsteypan grunuð um að hindra bláfátækt heimafólk í Afríkulöndum í að njóta afraksturs af þeim auðlindum sem þetta fólk á með réttu. Síðan virðist Samherji hafa flutt hagnaðinn burt úr þessum löndum og komið honum í skattaskjól,“ segir Inga í pistli sínum í Morgunblaðinu í dag.

„Vissulega er það svo að enginn skal úrskurðaður sekur fyrr en rannsókn hefur farið fram og dómar kveðnir upp. Augljóst er að Samherji þarf að útskýra og sanna bæði margt og mikið ef takast á að hreinsa nafn og orðstír fyrirtækisins og stjórnenda þess.“

Þá segir Inga meira liggja undir og að Samherji sé fjölþjóða fyrirtæki með starfsemi í mörgum löndum.

„Auk þess er það eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Íslands og á eignarítök í margvíslegum öðrum rekstri hér á landi. Hugsanleg afbrot og misbeiting á vegum þessa fyrirtækis er ekkert einkamál eigenda þess. Þetta varðar alla íslensku þjóðina. Orðspor okkar á alþjóða vettvangi er í húfi.“

Segir Inga stjórnvöld verða að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að bjarga því sem að bjarga verði fari allt á versta veg.

„Sjávarútvegsráðherra þarf að meta stöðu sína. Samherjahneykslið er hið síðasta í langri röð ömurlegra mála sem orða má við alvarlega spillingu. Hrunið 2008 með öllum þeim ljótleika sem þar kom fram og eyðilagði líf þúsunda saklausra Íslendinga. Panama-skjölin og Wintris-mál núverandi formanns Miðflokksins sem kostaði hann forsætisráðherrastólinn. Djöflamessa Miðflokksins á Klaustri fyrir ári hvar opinberaðist hvernig flokkar hafa notað sendiherrastöður sem skiptimynt í valdabitlingum. Gjaldþrot WOW-flugfélagsins þar sem öll kurl eru vart komin til grafar. Grái listinn. Og nú Samherjamálið.“

Segir Inga öll þessi dæmi orðið hneiksli á alþjóða vettvangi og að orðspor Íslands og Íslendinga hafi beðið hnekki.

„Ég er búin að fá nóg af þessum síendurteknu uppákomum þar sem við venjulegir Íslendingar horfum ofan í ógeðslegan pott spillingar sem við eigum enga sök á. Það er eitthvað mikið að í okkar samfélagi. Kvótakerfið olli siðrofi: Frjálst framsal aflaheimilda, græðgi og misskipting þjóðarauðs þar sem örlítill hluti þjóðarinnar fékk gríðarleg auðæfi á silfurfati sem þau hafa fénýtt af miskunnarleysi í garð samborgara sinna, og veltast nú um í vellystingum meðan stærstur hluti landsmanna býr við basl og örbirgð. Við þurfum endurreisn; – siðbót í atvinnu- og stjórnmálalífi, nýja vendi og nýjar leikreglur við stjórn þjóðfélagsins okkar. Flokkur fólksins er reiðubúinn að taka þátt í slíku starfi.“

Nýjast