FELLIR BLAÐAMENNSKA STJÓRNINA? (pistill)

Umræða um vantrauststillögu á forsætisráðherra í fullum gangi:

FELLIR BLAÐAMENNSKA STJÓRNINA? (pistill)

 

Ekki alls fyrir löngu felldi staðfesta örfárra blaðamanna hér á landi, einkum þeirra Jóhanns Páls Jóhannssonar og Jóns Bjarka, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur af ráðherrastóli.

Það er þó ekki alls kostar rétt staðhæfing. Hanna Birna féll vegna þess að hún hafði rangt við, sagði ósatt, sýndi fulltrúa minnihluta ofstopa, þess sem helst skyldi vernda í stað þess að ráðast á. Hún kom af stað spuna, varð ber að valdníði sem hafði skelfilegar afleiðingar í för með sér. Gjörðir hennar rýrðu eina helstu auðlegð góðra samfélaga, sjálft traustið. Hún hefði komist upp með svívirðuna ef allir blaða- og fréttamenn landsins hefðu lyppast þegar hún reif kjaft, hún réðist á þá örfáu en hugrökku blaðamenn sem héldu málinu gangandi. Á sama tíma voru flestir stærri fjölmiðlar landsins meðvirkir valdinu, þá skorti hugrekki og þrek til að standa í lappirnar, sátu makráðir á skrifstofum sínum og nutu útsýnis yfir Esjuna á sama tíma og blaðamenn litlu miðlanna lögðu eigið höfuð að veði. Sennilega hefðu höfuðin fokið ef Umboðsmaður Aþingis hefði ekki hafið sjálfstæða rannsókn á Hönnu Birnu. Sú rannsókn hefði aldrei hafist ef umbi Alþingis hefði ekki fyrst fengið mikilvægar upplýsingar frá sjálfstæðum rannsóknarblaðamönnum.

Þennan mánudagsmorgun stefnir í að vantrauststillaga verði borin upp á Alþingi, tillaga sem gæti steypt Sigmund Davíð Gunnlaugssyni, sjálfum forsætisráðherra landsins af stóli. Tíðindin eru bein afleiðing af mikilvægri blaðamennsku. En nú er enn meira undir en í Hönnu Birnu málinu. Ef vantraust verður samþykkt  á forsætisráðherra má leiða líkum að því að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar falli eins og hún leggur sig í leiðinni. Hvort sem stjórnin fellur eða ekki dylst engum hugur hvílík stórtíðindi hér eru á ferð. Og umræða dagsins er ekki síður mikil tíðindi fyrir íslenska fjölmiðlasögu.


Mann grunaði að upp væri runnin ein stærsta stund frétta þegar yfirlýsing forsætisráðherrafrúarinnar birtist á facebook í síðustu viku. Degi síðar varð ljóst að frúin sú á miklar eignir í skattaskjóli á Tortóla. Hún hefur gert kröfur í íslensku bankaþrotabúin sem nema um hálfum milljarði króna. Til að gera langa sögu stutta hefur æ fleiri íslenskum borgurum orðið ljóst síðustu daga að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefði aldrei orðið forsætisráðherra ef hann hefði gert grein fyrir eigin sérhagsmunastöðu fyrir kosningarnar 2013. Orðræða hans var öll á hinn veginn. Þess vegna varð hann svo vinsæll. Einu gildir hvort lögbrot hafi verið framið. Einu gildir hvort sýnt verður frammi á að staða hans í veigamestu trúnaðarstörfum kjörtímabilsins hafi sannarlega verið mörkuð sérhagsmunum forsætisráðherrahjónanna. Það er nóg að vafi skapist á því, nóg er að spurningin ein lifi í loftinu. Það er nóg að skortur á upplýsingum, að skortur á sjálfsögðu gagnæi sé til staðar. Fullt traust þarf að vera milli þjóðar og æðstu trúnaðarmanna almennings.


Öll viðbrögð forsætisráðherrahjónanna hafa markast af sóknartaktík síðan málið kom upp. Engin iðrun verið sýnd, minnir mjög á mál Hönnu Birnu. Öll viðbrögð forsætisráðherrahjónanna hafa miðast að því að gera þá tortryggilega sem spurðu eðlilegra spurninga. Fyrst hjóla þau í blaðamanninn, síðan hjóla þau í heilbrigða undrun og reiði almennings í stað þess að svara fyrir sjálft fréttamálið eða bregðast við af ábyrgð. Forsætisráðherrahjónin kölluðu Jóhannes Kr. Kristjánsson, einn fremsta blaðamann landsins, "Gróu á Leiti", þau kölluðu hann Gróu á Leiti eftir að hann hafði samband við hjónin til að fá viðbrögð á gögn sem hann býr yfir. Að leita viðbragða, fá hlið gerenda, er venja í góðri blaðamennsku áður en umfjöllun er birt. Verðlaunin sem forsætisráherrahjónin veittu Jóhannesi fyrir að sinna skyldum góðs blaðamanns voru að kalla hann Gróu á Leiti þegar forsætisráðherrafrúin birti hið forvirka viðbragð sitt á facebook, yfirlýsinguna sem spyr enn nýrra spurninga um siðferði forsætisráðherrahjónanna.


Rannsókn Jóhannesar og félaga hans í fjölþjóðlegu teymi rannsóknarblaðamanna hefur leitt í ljós að forsætisráðherrahjónin á Íslandi eiga gríðarlegar eignir í erlendu skattakjóli. Verndin sem þau hafa kosið að umljúki eigur þeirra þýðir að einu gildir hvort þau greiði einhvern skatt af eigunum til Íslands. Kostur skattaskjóla er að enginn er til frásagnar um hvort það sem gefið er upp er nálægt raunveruleikanum eða ekki. Og nú hafa þau tíðindi gerst að þetta er orðið öllum ljóst.

Þýðingarmikil blaðamennska virðist hársbreidd frá því að velta pólitískum ráðamanni úr sessi. Ef hann fellur er það vegna vilja almennings og kemur flokkapólitík ekkert við. Ekki fremur en í Hönnu Birnu málinu. Málið snýst um réttlætisbætur og kröfur um betra siðferði. Góð blaðamennska ryður þær brautir út um allan heim.

Björn Þorláksson.

Nýjast