Víðernin

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar:

Víðernin

Þjóð sem á fögur óbyggð víðerni ætti að gleðjast yfir þeim mikla auði. Sömuleiðis ætti hún að leggja stolt sitt í að varðveita þau víðerni. Í heimi vaxandi mengunar og hamfara er slík eign ekki sjálfsögð. Hún er ekki bara eftirsóknarverð heldur einnig ómetanleg.

Svo sannarlega þurfa ekki allir að líta þessi víðerni augum, það á að nægja að vita af þeim. Þannig hugsun á þó ekki greiða leið að öllum. Hvaða gagn er af náttúru og landslagi sem enginn sér, nema þá kannski Andri Snær Magnason, Lækna-Tómas og draumórafólk af sömu sort, hugsa ýmsir og andvarpa um leið vegna þess sem þeim finnst vera áberandi slæmur skortur á raunsæi.

Við lifum í tækniveröld þar sem stöðugur hraði er við völd ásamt hugsun um að nauðsynlegt sé að nýta náttúruna til hins ýtrasta til að auðvelda mönnum lífið. Í landi eins og Íslandi sem býr að ægifagurri náttúru er þetta hugarfar furðulega áberandi. Hugsunin er þá sú að ef hægt sé að nýta og virkja náttúru sem fáir líta augum þá skuli það vitanlega gert. Virkjanasinninn hugsar sem svo: Hvaða máli skiptir foss eins og Rjúkandi þegar hið stóra samhengi hlutanna er haft í huga? Hann getur svo sem verið augnayndi, allavega kemur hann vel út á myndum, en hvaða praktískt gagn er að honum? Eiginlega ekki neitt. Það er ekki endalaust hægt að hafa náttúruna bara upp á punt. Allt vitiborið fólk ætti að gera sér grein fyrir því. Ef hægt er að virkja mörgum til gagns og græða helling af pening þá er það hið besta mál. Það er alveg nóg af öðrum fossum í þessu landi.

Þeim einstaklingum sem hugsa á þennan hátt hefur örugglega ekki brugðið við nýlegar fréttir í sjónvarpsfréttum RÚV. Þar kom fram að erlendir vísindamenn hafa nú kortlagt stafrænt óbyggð víðerni Ófeigsfjarðarheiðar. Niðurstöður þeirra sýna að Hvalárvirkjun hefði meiri áhrif á víðernin en áður hefur verið haldið fram. Með framkvæmdum og mannvirkjum Hvalárvirkjunar yrði ósnortið víðerni Ófeigsfjarðarheiðar 45-48 prósentum minna en það er. Hvað með það? hugsa virkjanasinnarnir og yppta öxlum. Svo ægilegan skaða flokka þeir einungis sem sjálfsagðan fórnarkostnað.

Ekki verður beinlínis sagt að þessar fréttir RÚV komi fólki sem ann þessu svæði á óvart. Þetta eru örugglega sömu niðurstöður og það hefur allan tímann gert sér grein fyrir. Það er samt alveg ágætt að geta bent á að tilfinning þeirra sem varað hafa við Hvalárvirkjun hefur allan tímann verið hárrétt. Þessi fyrirhugaða virkjun er feigðarflan. Hún er einnig öllum þeim einstaklingum sem berjast fyrir henni til vansa. Þeir virðast blindaðir af þeirri hugsun að ef hægt sé að græða á náttúrunni þá beri að gera það. Það er einmitt græðgishugsun eins og þessi, ásamt skelfilegu skeytingarleysi, sem hefur leitt til þess að mannkynið býr við mengun og loftslagsbreytingar sem kalla yfir það hörmungar með reglulegu millibili.

Ósnortin víðerni eru fjársjóður sem er skylda okkar að vernda.

Nýjast