VG er að ná gömlu lykilstöðu framsóknar

Þorsteinn Pálsson skrifar:

VG er að ná gömlu lykilstöðu framsóknar

Flokkakerfið hefur smám saman verið að breytast. Flokkarnir eru fleiri og minni. Þetta er þróun sem þekkist í flestum Evrópuríkjum. En hitt er ekki síður athyglisvert að eðli einstakra flokka og staða þeirra í litrófi stjórnmálanna er líka að breytast.

Gamla kerfið

Áður fyrr var það svo að Sjálfstæðisflokkurinn spannaði allan hægri vænginn. Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn réðu vinstri vængnum. Seinni hluta síðustu aldar var Alþýðuflokkurinn þó of frjálslyndur og alþjóðasinnaður til að eiga með góðu móti samleið með Alþýðubandalaginu.

Í þessu horfna kerfi var Framsóknarflokkurinn ekki beint miðjuflokkur í málefnalegum skilningi heldur sat hann að meðaltali á miðjunni. Hann náði þeirri stöðu að ráða hvort hér voru myndaðar stjórnir til hægri eða vinstri að Viðreisnartímanum fráskildum.

Þannig var Framsókn öflugur vinstri flokkur þegar hún vann til vinstri en traustur hægri flokkur þegar hún vann til hægri. Vindáttin réði för hverju sinni.

Hægri vængurinn og miðjan

Miðflokkurinn er í dag popúlistaflokkur yst til hægri. Sjálfstæðisflokkurinn er um leið að missa þá stöðu að hafa frumkvæði lengst til hægri.

Til lengri tíma litið getur það hins vegar leitt til meiri breytinga að Sjálfstæðisflokkurinn hefur líka gefið verulega eftir á þeim hluta hægri vængsins sem liggur næst miðjunni. Viðreisn hefur tekið stærri hluta af því rými um leið og hún hefur einnig náð yfir miðjuna inn í raðir frjálslyndra sósíaldemókrata. Skoðanakannanir benda til þess að hún hafi aukið mest við fylgi sitt frá kosningum.

Ný lykilstaða VG

Að formi til og mest vegna sögulegs uppruna líta menn almennt svo á að VG sitji yst á vinstri vængnum. Í raun er VG þó fyrst og fremst íhaldssamur umhverfisverndarflokkur. Sósíalísk hugmyndafræði og róttækni hafa vikið.

Þessi nýja staða hefur aftur opnað tækifæri sem forystumenn flokksins hafa nýtt býsna vel. Það hefur reynst þeim tiltölulega auðvelt að koma VG fyrir í því rými sem Framsóknarflokkurinn hafði áður. Prinsipp eru ekki vandamál við stjórnarmyndun eftir að allir flokkar urðu umhverfisflokkar.

Flest bendir því til þess að VG fest sig í sessi á þeim stað í pólitíska litrófinu sem Framsókn valdaði áður. Þannig getur VG ráðið því á næstu árum hvort hér sitja hægri stjórnir eða vinstri stjórnir.

VG verður þannig hægri flokkur þegar hann vinnur til hægri og vinstri flokkur þegar unnið verður til vinstri. Eftir einhvern tíma verður svo unnt að segja að VG sé að meðaltali á miðjunni.

Samfylkingin bíður eftir kallinu frá VG

Samfylkingin er aftur orðin stærsti flokkurinn á vinstri vængnum og liggur um leið næst miðjunni. En hvers vegna nær hún ekki þessari stöðu sem VG virðist vera komin í varðandi stjórnarmyndanir? Sennilegasta skýringin liggur í stjórninni eftir hrun.

Þá lét Samfylkingin VG eftir málefnalegt forystuhlutverk á vinstri vængnum. Síðan hefur Samfylkingin af ásetningi eða bara í gáleysi litið út eins og fylgihnöttur VG. Það er eins og frjálslyndu viðhorfin séu í öðru sæti. Núna virðist hún einungis bíða eftir því að VG kalli hana til leiks á ný.

Stærsta blokkin er á miðjunni en nær ekki lykilhlutverkinu meðan Samfylkingin bíður

Samfylkingin, Viðreisn og Píratar eru ólíkir flokkar um margt. En kjarninn í boðskap þeirra byggir þó á frjálslyndum alþjóðasinnuðum hugmyndum. Frá málefnalegu sjónarhorni er þetta stærsta blokkin í þinginu.

Hvers vegna hafa þessir flokkar ekki komið sér í þá stöðu á miðjunni að geta á málefnalegum forsendum ráðið mestu um stjórnarmyndun?

Flest bendir til að ástæðan sé sú að Samfylkingin er ekki reiðubúin til að taka frumkvæði og þá áhættu sem því fylgir. Hún telur enn vera meira öryggi í hinu að bíða eftir kallinu frá VG.

Nýjast