TINDER: Hún sendi mynd þar sem hún var á nærbuxum og brjóstahaldara

Anna Kristjánsdóttir skrifar frá Tenerife:

TINDER: Hún sendi mynd þar sem hún var á nærbuxum og brjóstahaldara

Dagur 177 - Tinder.

Þegar ég var emjandi yfir einmanaleika mínum síðastliðið haust við sambýliskonurnar mínar, tóku þær sig til og skráðu mig á stefnumótasíðuna Tinder. Ekki virtist mikið um samkynhneigðar konur á lausu hér í Paradís sem mér þykir furðulegt því hér er gott að vera og ég beið og ég beið.

Loksins beit ein á agnið í fyrradag og sýndi mér áhuga. Ekki gekk það alveg þrautalaust fyrir sig því hún virtist lítið tala annað en spænsku. Þá vildi hún helst tengjast á WhatsApp sem mun vera einskonar samskiptaforrit sem er algengt hér og það kostaði heilmikil vandræði að setja það rétt upp.

Svo var allt klappað og klárt og hún sendi mynd af sér þar sem hún var á nærbuxum og brjóstahaldara. Ekki gat ég verið minni manneskja. Leitaði uppi fallegustu mynd sem til er af mér, mynd sem Ómar Óskarsson ljósmyndari tók fyrir Morgunblaðið þegar ég var að lesa upp úr passíusálmunum í Grafarvogskirkju á föstudaginn langa árið 2011. Á myndinni var ég með engilsásjónu og allan heimsins heilagleika. Þessa mynd sendi ég dömunni.

Síðan hefi ég ekkert frá henni heyrt.

Nýjast