Þetta fékk mig til að líta í eigin barm

Jón Óðinn skrifar:

Þetta fékk mig til að líta í eigin barm

Inga konan mín er myndlistarkona. Ég hef aldrei haft skilning á myndlist. Við vorum í París.  Hún hefur mikið dálæti á Monet, svo ég fylgdi henni á listasafn þar sem sjá mátti verk eftir hann. 

Við gengum inn í sal.  Ég varð strax fyrir vonbrigðum, hélt ég væri að fara að sjá margar myndir.  Þarna voru bara fjórar myndir, hver um sig svo stór að heilan vegg þurfti.  Inga mín sagði mér að þetta væru vatnaliljumyndirnar hans, síðan byrjuðu tár að streyma niður kinnar hennar og ég náði engu sambandi við hana.

Ég rölti meðfram veggjunum og reyndi að sjá snilldina. Ég sá bara klessur og grófar pensilstrokur.

Í miðjum salnum var bekkur.  Ég fékk mér sæti, vissi að þarna myndi ég þurfa að bíða í talsverðan tíma, Inga mín var á annarri veröld en ég.  Ég tók af mér gleraugun, hallaði mér fram og niður til að teygja á bakinu og reisti mig svo upp. 

Við mér blasti allt önnur mynd á veggnum framan við mig.  Það var eins og ný veröld hefði opnast.  Það sem áður hafði verið hvít klessa ofan við aðra fjólubláa var nú sindrandi ljósgeisli á gáru.  Ég sat sem lamaður, fegurðin var ólýsanleg.  Þvílíkur galdur.  Ég fylltist auðmýkt gagnvart snilli listamannsins, hvernig honum tókst að skapa þvílíka fegurð með samt með svo grófum hætti.  Hvernig hann gerði þá kröfu á mann að sjá heildarmyndina, stara ekki á grófa klessu eins og ég hafði gert.  Hvernig hann hafði sýn sem í fegurð sinni var stærri og merkilegri en að ég hafði nokkru sinni haft.

Þetta fékk mig til að líta í eigin barm, til að hugsa út fyrir þann ramma sem að ég er vanur.  Ég lendi oft á rökræðum við fólk, hef alltaf rétt fyrir mér og finnst ég verði að leiðrétta þá sem sjá ekki hlutina eins og ég.  Nú bar ég þetta saman við það sem ég horfði á.  Var hugsanlegt að mín skoðun væri aðeins lítil pensilstroka í stóru myndinni?  Gat verið að ef að tæki niður gleraugun þá væru hinar skoðanirnar jafn mikilvægar pensilstrokur?  Hvað ef að ég og viðmælendur mínir stigum öll eitt skref aftur á bak, settumst á bekkinn og horfðum saman, reyndum þannig að sjá heildarmyndina?  Hvað myndi gerast þá?

Inga mín var búin, hún var tilbúin til að kveðja Monet vin sinn.  Ég stóð upp setti gleraugun aftur á mig.  Ég leit á vegginn, galdurinn var farinn, ég sá bara klessur. 

Ég hafði aftur rétt fyrir mér.  Bara ég.

Nýjast