RÉTT SKREF TEKIÐ Á RÖNGUM TÍMA

Hanna Katrín Friðriksson skrifar:

RÉTT SKREF TEKIÐ Á RÖNGUM TÍMA

Þegar stelpurnar mínar voru í leikskóla, upp úr aldamótum, þá borguðum við mæðurnar fyrir lengstu vistina sem var í boði. Til kl. 17:30 ef ég man rétt. Ekki af því að við notuðum þann möguleika oft, heldur vegna þess að við þurftum, starfs okkar vegna, að hafa þennan sveigjanleika. Á móti kom að við gátum kannski mætt með þær hálftímanum seinna en venjulega. Ég er ekki ósammála þeim sem telja hagsmunum barna betur borgið með því að vera skemur á leikskólanum á degi hverjum. Ég er ekki endilega sammála heldur, mér finnst skipta máli hvað kemur á móti.

Það er umhugsunarvert að skóla- og frístundaráð Reykjavíkur skuli hafa samþykkt tillögu um að stytta opnunartíma leikskóla, að því er virðist án samtals við þá sem ekki bara nýta sér þjónustu leikskólanna, heldur eru beinlínis háðir þjónustunni. Það er nefnilega veruleikinn fyrir marga, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Sú umræða hlýtur að minnsta kosti að fara fram af hálfu borgarráðs áður en tillagan verður tekin til endanlegrar afgreiðslu.

Starfsfólk leikskólanna hefur margt stigið fram og fagnað þessari ákvörðun. Í ljósi þess veruleika sem blasir við varðandi starfskjör og starfsaðstæður á leikskólum er það ekkert skrítið. Ég hef hins vegar ekki heyrt neitt enn þá sem sannfærir mig um skynsemi þess að láta þessar breytingar varðandi styttingu leikskólans verða að veruleika áður en almennar breytingar verða á starfstíma vinnandi fólks.

Þetta er jafnréttismál. Allar ákvarðanir sem lúta að sambandi fjölskyldulífs og vinnu eru jafnréttismál. Með þróun þess sambands í huga, síðustu ár og áratugi, finnst mér að hér sé verið að taka rétt skref á röngum tíma.

Nýjast